Færsluflokkur: Íþróttir

Háspennt hughrif á heimaleikjum

Það er ekkert skemmtilegra en þegar heimaliðið sigrar í framlengdum leik, þar sem allt hefur verið í járnum og spennustigið í húsinu hættulega rafmagnað. Ég veit að Íslendingar voru að vinna Frakka, það var lyginni líkast, en Sauðárkrókur er minn heimabær, Tindastóll mitt lið og úrvalsdeildarkörfubolti skemmtilegasta íþróttin.  Í kvöld komu gestirnir úr Breiðholtinu, en ÍR-ingar berjast eins og við um sæti í 8-liða úrslitum. Það verður að segjast eins og er að það blés ekki byrlega fyrir heimaliðinu lengi vel leiks. En með seiglu tókst þeim jafna leikinn á lokasekúndum og knýja hann í framlengingu, þar sem þeir reyndust sterkara liðið og sigruðu verðskuldað, 103-97.

Eftir svona leiki kem ég heim skrælnaður í hálsi og rámur í rödd, hendurnar eru rauðsárar eftir allt klappið og ég er búinn að tapa svosem eins og líter af vökva (sem þýðir að ég verð að skipta um fatnað, yst sem innst). Þetta eru heljarinnar átök, líkamleg og andleg, fyrir mann eins og mig sem lifi mig inn í leikinn og reyni að hvetja mestallan tímann! En þetta er samt alveg fyrirhafnarinnar virði, skemmtunin sem fæst út úr þessu er svo gríðarlega gefandi. Því miður er eiginlega ekki hægt að koma stemningunni og hughrifunum í orð, menn verða eiginlega að hafa sjálfir verið í Krókódílasíkinu á Sauðárkróki á svona háspennuleikjum í körfubolta, á lokasekúndum innan um sjóðheita hávaðasama stuðningsmenn, til að skilja hvað ég er að tala um.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband