Færsluflokkur: Ferðalög

Fimm milljónir...

... eru svona svipuð upphæð og algengt er að íslensk stjórnvöld styrki verkefni af þessum toga með... í verðlitlum íslenskum krónum auðvitað!  Munurinn er sá að þessar sænsku fimm milljónir eru alvöru upphæð (þrettánfalt verðmeiri), sem dugir lengra en fyrir brotabroti kostnaðar við uppbyggingu svona menningarseturs. Til hamingju Húsvíkingar!
mbl.is Sænsk stjórnvöld styrkja Garðarshólmaverkefnið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Drangeyjarmyndir

Það eru víst fýlar á Íslandi ;)Myndir frá lundaveiðiferðinni í Drangey í síðustu viku er nú komnar inn; smella HÉR til að skoða.

Lundaveiðiferðin að baki

Lundaveiðifélagar í Drangey 2008Árlegri lundaveiðiferð í Drangey á Skagafirði lauk hjá okkur félögunum fjórum í gær, degi fyrr en áætlað var. Ástæðan var sú að við höfðum strax á fyrsta sólarhring náð í þann skammt sem við samanlagt náum að torga fram á næsta vor, eða um 400 fuglum. Veðrið var mjög svo ákjósanlegt; sól og hiti, en ágætur vindur. Allajafna flýgur fuglinn meira í vindi og þá gengur betur að háfa. Myndir úr ferðinni eru væntanlegar inní myndasyrpuhlutann hér til vinstri.

Myndir af Strútsstíg

Í myndaalbúmi hér vinstra megin eru nú komnar nokkrar myndir frá göngu á Strútsstíg í síðustu viku. Fimmtán manna hópur, undir dyggri leiðsögn Silvíu frá Útivist, gekk í fjóra daga og fékk allan veður- og náttúrupakkann sem í boði er; allt frá bongóblíðu yfir í rok og rignginu, svartan sand, hvíta jökla og allt þar á milli.

Eitt sinn hjólfar...

Jarðvegsskemmdir á ásnum handan við ÁlftavötnÁ göngu um Strútsstíg með Útivist í síðustu viku blöstu víða við skemmdir á jarðvegi, sem jeppakallar fyrri tíma ollu með akstri sínum. Sem betur fer hefur vitund um skaðsemi utanvegaaksturs aukist og stórlega dregið úr honum í seinni tíð. Mörg þeirra sára sem við blasa eru nokkurra tuga ára gömul, en þau hverfa aldrei. Á meðfylgjandi mynd má glögglega sjá hvernig eitt saklaust hjólfar eftir bíldekk hefur orðið að heljarinnar skurði í áranna rás. Sorglegt, ekki satt?

Vond viðburðastjórnun á Landsmóti hestamanna

Hef það eftir fyrirtækjum sem voru með sýningarbása í reiðhöllinni á landsmótinu á Hellu að þar hafi verið vond viðburðastjórnun í gangi:

1. Umsamin staðsetning á básum í reiðhöll hafi skolast illilega til
2. Það sem fram fór í reiðhöllinni hafi verið illa kynnt fyrir mótsgestum
3. Inngangar í reiðhöll voru ekki alltaf þeir sömu, sem torveldaði aðgengi gesta
4. Tengilið milli sýningaraðila í reiðhöll og mótsstjórnar hafi sárlega vantað
5. Haldnir hafi verið fundir sem sýnendur voru ekki boðaðir á
6. Vegna slælegrar kynningar framan af móti hafi laugardagurinn verið eini dagurinn sem fólksstreymi hafi verið í höllina
7. O.fl. o.fl...

Einnig hefur heyrst frá mörgum knöpum/keppendum að aðstaða og skipulag hafi ekki alltaf verið upp á marga fiska. Miðað við allar þær lýsingar sem ég hef heyrt verður ekki mikið mál að toppa þetta Hellumót á Landsmóti hestamanna á Vindheimamelum í Skagafirði árið 2010, þótt þar sé engin reiðhöllin! Það sem sunnlendingum er helst hrósað fyrir er að veitingasalan hafi gengið vel ;)


Áhugavert

Hér er síða Íslands hjá UNESCO, þar sem sjá má til viðbótar Þingvöllum og Surtsey, þau svæði/staði hér á landi sem stungið hefur verið uppá sem heimsminjum! Það er líka fróðlegt að skoða friðlýsingarkort Umhverfisstofnunar.
mbl.is Surtsey á heimsminjaskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rán um hábjartan dag

Harðfiskur er herramannsmatur. Sérstaklega finnst mér feitur steinbítur að vestan vera lostæti, en það er auðvitað smekksatriði. Harðfiskur sem er keyptur beint af verkanda fæst á um kr. 3.500,- kílóið. Já, það er ekki gefið hollustunammigottið það. Sé fiskurinn keyptur útúr búð er algengt verð frá 4.500,- uppí rúmar 6.000 kr. pr. kg. En það keyrir fyrst um þverbak þegar menn láta glepjast af því að kaupa hann í sjoppum og á bensínstöðvum í litlum pakningum; 100 gr, 50 gr, eða það sem rándýrast er: Í 25 gr pakkningum. Kunni menn að reikna komast þeir fljótt að því að í slíkum smápokum eru þeir að borga allt uppí 12.000,- krónur fyrir kílóið!

Fjaðrárgljúfrin fallegust

Guðmundur Jónsson í FjaðrárgljúfrumRétt vestan við Kirkjubæjarklaustur er einn af mínum uppáhalds náttúrfyrirbærum íslenskum, Fjaðrárgljúfur. Stígur er upp með bakkanum að austanverðu, þar sem flestir ferðamenn ganga um tveggja km leið og horfa niður í gljúfrið. Mun miklu sterkari upplifun fylgir því hinsvegar að ganga niðrí gljúfrinu. Fjaðráin hlykkjast þar um og til að komast inneftir þarf að vaða hana á nokkrum stöðum. Áin er grunn og straumlítil og auðveld yfirferðar á góðum vaðstígvélum, nú eða bara berum fótum. Þarna inni í gljúfrinu er maður í undraveröld stórfenglegra stapa og bergmyndana og upplifir yfirþyrmandi návígi við náttúru sem seint gleymist.

Gamli maðurinn og tréð

Fyrir mörgum árum síðan bjó ég í Fredrikstad í Noregi. Við hlið fyrirtækisins sem ég starfaði hjá var Simo barnavagnaverksmiðjan. Einn sólríkan morgun rölti ég mér niður á planið til þeirra og tók tali gamlan mann sem stóð og hallaði sér upp að karmi við stórar lagerdyr. Fljótlega í samtalinu spurði ég hann hvað hann hefði unnið þarna lengi. Hann varð hugsi og horfði upp í hlíðina þarna rétt fyrir ofan, þar sem stóð á berangri eitt það alstærsta tré sem ég hef um ævina séð. Sjáðu þetta tré þarna, sagði hann og benti uppeftir... ég gróðursetti það sem litla hríslu sumarið sem ég byrjaði hérna. Hann hafði unnið þarna hátt í sextíu ár og það var einhver stóísk kyrrð í ánægjusvipnum sem færðist yfir andlitið þegar hann horfði hugsi á tréð sitt.  Við stóðum svo þarna í þögn dágóða stund og horfðum á tréð hans. Ef ég héti Ársæll að seinna nafni hefði ég séð tár á hvarmi, hjá okkur báðum!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband