Gamli maðurinn og tréð

Fyrir mörgum árum síðan bjó ég í Fredrikstad í Noregi. Við hlið fyrirtækisins sem ég starfaði hjá var Simo barnavagnaverksmiðjan. Einn sólríkan morgun rölti ég mér niður á planið til þeirra og tók tali gamlan mann sem stóð og hallaði sér upp að karmi við stórar lagerdyr. Fljótlega í samtalinu spurði ég hann hvað hann hefði unnið þarna lengi. Hann varð hugsi og horfði upp í hlíðina þarna rétt fyrir ofan, þar sem stóð á berangri eitt það alstærsta tré sem ég hef um ævina séð. Sjáðu þetta tré þarna, sagði hann og benti uppeftir... ég gróðursetti það sem litla hríslu sumarið sem ég byrjaði hérna. Hann hafði unnið þarna hátt í sextíu ár og það var einhver stóísk kyrrð í ánægjusvipnum sem færðist yfir andlitið þegar hann horfði hugsi á tréð sitt.  Við stóðum svo þarna í þögn dágóða stund og horfðum á tréð hans. Ef ég héti Ársæll að seinna nafni hefði ég séð tár á hvarmi, hjá okkur báðum!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband