Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Einkavæðing

“Undanfarið hefur lítið farið fyrir umræðum um einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Það er miður því ennþá stendur ríkið í atvinnurekstri sem einkaaðilar eru fullfærir um að sinna. Það sem verra er, er að flest þessi ríkisfyrirtæki eru í samkeppni við einkaaðila á markaði, en það er kunnara en frá þurfi að segja að á slíkum samkeppnismörkuðum verður samkeppnisstaða fyrirtækjanna aldrei og getur aldrei orðið jöfn. Síðan ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tók við völdum hefur ekkert ríkisfyrirtæki verið einkavætt.” (Sigurður Kári, 25. ágúst 2008; heimild: http://sigurdurkari.blog.is/blog/sigurdurkari/entry/625051/)

Íslenska efnahagsundrið er engin bóla

„Þrátt fyrir mjög alvarlega stöðu í íslenskum efnahagsmálum um þessar mundir þá megum við ekki gleyma því að íslenska efnahagsundrið er engin bóla og ef við stöndum rétt að málum þá er Ísland land tækifæranna og horft verður til Íslands um fyrirmyndir á næstu árum og áratugum." Þetta segir Þór Sigfússon, formaður Samtaka atvinnulífsins, í grein í Markaðnum í dag. (3. september 2008; heimild: http://www.sa.is/frettir/almennar/nr/4193/)

Kirkjan lokkar til sín krakkana

Leyfið börnunum að koma til mínNú er kirkjan búin að fatta hvað höfðar til barna á Íslandi í dag og notar það í auglýsingu í öllum fréttablöðum dagsins. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd dugir nú ekkert minna en full kista af gulli; sannkallað gylliboð fyrir gráðuga gríslinga, sem væntanlega flykkjast í guðshúsin til að fá sinn fjársjóð! Og svo segir í auglýsingunni að barnastarf kirkjunnar sé fyrir alla, en samt er auglýsingin næstum bara í nafni sókna á höfuðborgarsvæðinu. Eiga ekki landsbyggðarbörnin líka að fá sitt gull?

Meira talað en framkvæmt hér á landi

Við lestur nýjustu skýrslu Byggðastofnunar verður manni enn frekar ljóst hvað íslensk stjórnvöld hafa verið stefnu- og máttlaus í byggðamálum og jöfnun lífskjara í landinu. Í samanburði við alvöru aðgerðir nágrannalanda okkar erum við með allt niðrum okkur í þessum málum, svo vægt sé til orða tekið. Eitt sorglegt dæmi úr okkar auma veruleika eru háhraðatengingar á dreifbýlum svæðum, sem átti að vera löngu búið að framkvæma fyrir hluta af því fé sem ríkið fékk við sölu Landsímans sáluga. Fróðlegt er að skoða Fjarskiptaáætlun 2005-2010, þar sem m.a. stendur: "Að allir landsmenn sem þess óska hafi aðgang að háhraðatengingu árið 2007." Eins og flestir vita er þetta ekki enn komið til framkvæmda. Dæmi um það sem nágrannar okkar eru að gera fyrir fyrirtæki og íbúa byggðarlaga í vanda, er t.d:

  • Afnám/undanþága tryggingagjalds
  • Niðurfelling/lækkun á endurgreiðslu námslána
  • Lækkun á raforkugjaldi
  • Lækkun á tekjuskatti
  • Hækkun barnabóta (umfram aðra)
  • Launagreiðslur til leikskólakennara (viðbótargreiðsla umfram aðra)

Myndir frá sjávarútvegssýningunni í Brussel

Atomium - minnisvarði um heimssýninguna 1958Hátt í tvö þúsund fyrirtæki frá um áttatíu löndum kynntu að þessu sinni vörur sínar og þjónustu á sýningunni, sem um 23 þúsund gestir heimsóttu. Flestir þeirra eru á vegum inn- og útflutningsaðila sjávarafurða, eða dreifingar- og vinnslufyrirtækja. Þessi árlega sýning, sem nú var haldin í sextánda sinn, á vafalítið bara eftir að stækka á komandi árum, ekki hvað síst vegna vaxandi almennrar þekkingar á því hve heilsusamleg neysla fiskafurða er. Smellið hér til að sjá myndir frá sýningunni og Brusselferðinni.

Tyggjóið í búðirnar, tóbakið í apótekin?

Lyfsalar vara við því að nikótínlyf verði seld í almennum verslunum; eru með hræðsluáróður um að neysla þeirra muni aukast og að skorti muni uppá faglega ráðgjöf. Flestir neytendur “nikótínlyfja” eru að nota tyggjó til að losna við sígaretturnar, og það þarf ekki mikla ráðgjöf í að velja stærð á pakkningu, með hvaða bragði tyggjóið er, eða hvort það er 2mg eða 4mg. Nikótínlyf eru á okurverði í apótekum og ég er að vona að þau lækki talsvert við að fara í matvörubúðir og bensínstöðvar. Má ekki bara bæta lyfsölum tekjumissinn með því að leyfa þeim að veita ráðgjöf við sölu á sígarettum, sem eru jú hundraðfalt hættulegra efni en umrædd hjálparlyf?

Snússi á ferð í Zhongshan og spilavítisborginni Macau

Snússi með HongKongDollar í hagnaðHelgin fór í ferðalög hjá okkur Snússa, sem lögðum ferju undir fót yfir flóann hér vestur af Shenzhen. Fyrst heimsóttum við skófabrikku Óskars Jónssonar, Green Diamond, en hann tók einkar vel á móti okkur samlöndum sínum. Við borðuðum saman níu manns og áttum gott spjall, en svo gisti hópurinn í vellandi niðurníddum lúxus á hótel Ambassador í Zhongshan, sem sannarlega má muna sinn fífil fegurri. Sunnudagurinn fór svo fyrir lítið fé (ca 2000 kr) í spilavítunum í fyrrum portúgölsku nýlendunni Macau, en sá staður hefur svipaðan status og Hong Kong að því leitinu að þegar þangað kemur fer maður yfir landamæri og út úr Kína. Macau er nokkurskonar Las Vegas Asíu og þarna var allt yndislega yfirdrifið; í stærðum, dirfskufullri hönnun og yfirþyrmandi neonljósadýrð. Við komum svo með ferjunni yfir flóann í kvöldkyrrðinni og var Snússi hinn hressasti með ferðina, eins og sjá má hér á myndinni, þar sem hann veifar sínum fyrsta spilavítishagnaði.

Ævintýri Snússa litla í Kína – 4. hluti

Í dag tókum við Snússi rólegan laugardag í Sekou; röltum um og fylgumst með mannlífinu í sólskininu. Í bænum var komið við í banka til að skipta dollurum, og það tók nú drjúga stund. Fyrst fyllti ég út eitt eyðublað, svo fyllti bankastarfsmaðurinn út tvö eða þrjú í viðbót, svo tók hann afrit af passanum mínum, en þá tók við reikistefna þriggja starfsmanna í allnokkra stund. Áður en yfir lauk hafði ég undirritað fjórum sinnum og tíminn sem það tók að skipta þessum fáeinu dollurum yfir í Yuan Renmimbi var um það bil tuttugu mínútur! Ekki sérstaklega skilvirkt það. Svo fórum við Snússi með fullt af Kínverjum út á jarðberjaakur, þar sem við týndum okkar eigin ber í körfu. Þarna var skemmtileg fjölskyldustemning í rúmlega tuttugu stiga hita; allir vönduðu sig við að stika stígana og týna fallegustu berin. Gömul kona með stráhatt vigtaði svo og rukkaði við hliðið á leiðinni út. Hún var með skiptimyntina í hátísku Gucci veski hangandi utan á sér, en þau fást hér fyrir lítið fé, í landinu þar sem kaffibollinn á hótelinu kostar meira en leigubíll í fimmtán mínútur (eða uþb 200 krónur). Kvöldið er svo frátekið fyrir stórdinner hópsins sem tengist Medialite hér í Kína.

Ævintýri Snússa litla í Kína - 3. hluti

Indy, Angela, Snússi og égÍ dag fengum við félagarnir Snússi og ég, ásamt þeim þeim Binna og Indy, frábæra leiðsögn um borgina þvera og endilanga af heimakonunni yndislegu, Angelu Wang. Eftir hádegi var farið af stað í verslunarferð í þá hrikalegustu markaði sem maður hefur heimsótt; bæði var stærðin slík, auk þess sem vörur voru misjafnlega mikið falsaðar og ágengni sölumanna með ólíkindum. Að lokinni þessari mögnuðu upplifun fór Angela með okkur á ekta kínverskan háklassa veitingastað, þar sem hún pantaði sýnishorn af öllu því besta sem Kínverjar sjálfir borða alla jafna. Svo var meira verslað, en undir kvöldmat var farið á virðulegt nuddhús, á fjórum hæðum, með allri hugsanlegri þjónustu og þægindum, þar sem við fórum öll í fóta- og handsnyrtingu, eyrnahreinsun, andlitsmeðferð og enduðum á kínversku nuddi, auk þess sem við bæði snæddum ljúffenga ávexti og nutum aðstoðar fjölda þjónustufólks. Í lok dags var svo farið að dansa á Terrassen í Shekou, þar sem band frá Filippseyjum hélt uppi rokna rokkstuði inn í nóttina. Snússi var hæstánægður með daginn, þrátt fyrir að hafa misst af dansinum í lokin. Sjálfur er ég alsæll.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband