Færsluflokkur: Spaugilegt

Sjaldsénn texti

Þegar snjóruðningstæki hófust handa á Húsavík í vetur var alllangt síðan síðast og því þurfti að fjalla um það í þingeyska fréttamiðlinum Skarpi. Þar var frétt á baksíðu, mynd af snjóruðningstæki og fyrirsögnin: Sjaldsénn snjómokstur!

Kúl tröllkerlingar í Keldudal

Fyrir miðjum Skagafirði liggur Hegranesið og klífur Héraðsvötn í tvennt. Þar eru klettaborgir miklar og þaðan sprottnar margar sagnir um álfa og huldufólk. Sunnarlega á nesinu er ferðaþjónustubýlið Keldudalur, þar sem m.a. hefur fundist merkilegur grafreitur úr heiðni. En þar eru líka álfar og huldufólk, og það sem meira er, líka tröllkerlingar. Sjáandi einn var fenginn til að ganga um jörðina og rissa upp og lýsa því sem fyrir augu bar. Ferðamenn sem gista í Keldudal geta fengið þessar teikningar plastaðar með í gönguferð um svæðið, en á einni þeirra má sjá heljarmikla tröllkerlingu, bera að ofan með flennistór brjóst. Þarna eru því álfar, huldufólk og tröllkerlingar... fyrir alla fjölskylduna!

Þegar Gunnar í Krossinum lagði á mig hendur

Eitt sinn vann ég hjá fyrirtæki þar sem eigendurnir voru góðir vinir Gunnars í Krossinum. Eftir að nuðað hafði verið mikið í mér, lét ég eftir þeim að reyna sig við mína glötuðu sál (að þeirra mati). Þeir krupu tveir með spenntar greipar framan við skrifborðið mitt, með Gunnar standandi á milli sín. Hann lagði hendur á höfuð mitt, herbergið fylltist af hávaðasömu guðstali þeirra þriggja og allt nötraði og skalf. Eftir dágóða stund var ég spurður að því hvort ég fyndi ekki eitthvað. Ég skynjaði ekkert yfirnáttúrulegt, bara titrandi sveittar hendur Gunnars á höfði mér, og flokkast því enn í margra hugum sem trúlaus glötuð sál.

Tvær gátur

Gáta 1: Spækjurnar sjá um glennuna, meðan karlinn heldur þétt um skaftið.

Gáta 2: Loðið lint, stundum stinnt, stendur á milli fóta, karlmenn eiga en konur af því njóta.

Lausnir í athugasemdum 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband