Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Hvað ef guð væri bíll?


Frelsið er dýrmætt

Í gær var alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Skilningur á mikilvægi hans í mínum huga tengist því sem ég er að lesa þessa dagana, nefnilega Dýrmætast er frelsið, eftir Hege Storhaug. Þar er fjallað um innflytjendavanda á vesturlöndum í víðu samhengi og sýn mín á Íslam og ólíkan menningarmun og hugmyndafræði hefur dýpkað. Staða konunnar í þeirri trúarveröld er mjög bágborin og á einum stað lýsir höfundur bókarinnar þessu þannig, að kona hefur í raun mun minni rétt en þræll eða trúleysingi, sem þó hafa afar lágan status hjá múslimum. Bæði þrællinn og trúleysinginn eiga nefnlega möguleika á að fá uppreist æru; þrællinn að verða frjáls maður meðal manna, og trúleysinginn að taka trú og öðlast virðingu á nýjan leik. Konan verður hinsvegar „bara" kona, sem oft þarf að lúta boðum og bönnum Kórans eða Sharía, og skelfilegum yfirgangi ættar-, feðra- og karlaveldis! Ef þú vilt öðlast sýn inní veröld sem okkur flestum hulin, en mikilvægt er að hafa skilning á, þá skaltu lesa bók Storhaug.


Eyðilegging áfangastaðar í ferðaþjónustu

Í gær voru fimm ár liðin frá því að Saddam Hussein náðist í holu sunnan við Tíkrit í Írak. Litla byrgið sem harðstjórinn fannst í var í kjölfarið eyðilagt. Í stað þess að leyfa heimamönnum að búa til úr því aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Þeir sem þetta gerðu sögðu það gert til að holan yrði ekki í hugum fylgjenda Saddams að táknmynd leiðtoga síns. Tækifæri fyrir heimamenn til hafa ágætis tekjur af því að selja ferðamönnnum aðgang var þar með eyðilagt. Myrk ferðamennska (e: Dark tourism) er vel þekkt og mikið nýtt um allan heim. Maður veltir þessvegna vöngum yfir því af hverju þessi hola í Írak var eyðilögð, þegar útrýmingarbúðir nasista fá að starfa í friði með mikla aðsókn árlega.

Kirkjan lokkar til sín krakkana

Leyfið börnunum að koma til mínNú er kirkjan búin að fatta hvað höfðar til barna á Íslandi í dag og notar það í auglýsingu í öllum fréttablöðum dagsins. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd dugir nú ekkert minna en full kista af gulli; sannkallað gylliboð fyrir gráðuga gríslinga, sem væntanlega flykkjast í guðshúsin til að fá sinn fjársjóð! Og svo segir í auglýsingunni að barnastarf kirkjunnar sé fyrir alla, en samt er auglýsingin næstum bara í nafni sókna á höfuðborgarsvæðinu. Eiga ekki landsbyggðarbörnin líka að fá sitt gull?

Ályktunarhæfni mannsins...

... er afar skeikult fyrirbæri þegar kemur að svona löguðu. Við neitum að horfast í augu við tölfræðilegar staðreyndir, heldur tínum til einstök atvik, sem er ætlað að færa sönnur á hið gagnstæða. Það eru auðvitað afar hæpin vísindi. Hjátrú er og verður áfram hluti af mannlegri tilveru, þótt hún eigi sér enga stoð í raunveruleikanum. Ein af mínum uppáhaldsbókum fjallar um þessi fyrirbæri og mörg önnur mjög svo áhugaverð á svipuðum nótum, en hún er eftir Thomas Gilovich og heitir Ertu viss? - Brigðul dómgreind í dagsins önn (How we know what isn't so - The fallibility of human reason in everday life, útg. 1991).
mbl.is Minna um óhöpp á föstudaginn 13. en aðra föstudaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðdómleg golfsaga

Jesús, Móses og gamall karl spiluðu golf. Móses sló fyrstur á stuttri brautinni, sem var með tjörn rétt framan við flötina. Kúlan stefndi í vatnið, en Móses lyfti höndum og viti menn; vatnið klofnaði og kúlan skoppaði í gegn og upp á flöt. Jesús sló næstur; átti slæmt högg og kúlan skoppaði  af brautinni og lenti á laufblaði á miðri tjörninni. Þar flaut hún um, en guðssonurinn gerði sér lítið fyrir og labbaði út á vatnið, þar sem hann gekk á vatninu, æfði höggið í rólegheitum og sló svo kúluna af laufblaðinu, beint að flagginu. Síðastur sló gamli maðurinn. Kúlan fór eitthvað beint út í buskann, inní íbúðarhverfi við hliðina á golfvellinum, þar sem hún skoppaði af húsþaki, uppúr þakrennu, niður á gangstétt, yfir götuna og beint ofan í tjörnina. Þegar kúlan var rétt við það að lenda í vatninu kom upp froskur, sem greip hana í kjaftinn. Á sama augnabliki kom örn flúgandi og greip froskinn í gogginn. Froskinum brá, missti kúluna, sem rúllaði beint ofan í holuna. Þá leit Móses á Jesú og sagði: Það er óþolandi að spila golf við pabba þinn!

Þegar Gunnar í Krossinum lagði á mig hendur

Eitt sinn vann ég hjá fyrirtæki þar sem eigendurnir voru góðir vinir Gunnars í Krossinum. Eftir að nuðað hafði verið mikið í mér, lét ég eftir þeim að reyna sig við mína glötuðu sál (að þeirra mati). Þeir krupu tveir með spenntar greipar framan við skrifborðið mitt, með Gunnar standandi á milli sín. Hann lagði hendur á höfuð mitt, herbergið fylltist af hávaðasömu guðstali þeirra þriggja og allt nötraði og skalf. Eftir dágóða stund var ég spurður að því hvort ég fyndi ekki eitthvað. Ég skynjaði ekkert yfirnáttúrulegt, bara titrandi sveittar hendur Gunnars á höfði mér, og flokkast því enn í margra hugum sem trúlaus glötuð sál.

Er skólinn loks að slíta sig frá kirkjunni?

Samkvæmt ákvörðun menntamálaráðuneytisins er börnum nú óheimilt að fara í ferðir á skólatíma sem tengjast fermingafræðslu. Bréf um þetta efni var sent grunnskólum landsins í síðustu viku. Þessu fagna ég, sem hef lengi gagnrýnt hvað kirkjan hefur víða óheftan aðgang að skólabörnum. Að mínu mati eiga trúboð og fræðsla, kirkja og skóli, menntun og trúmál, enga samleið. Af gefnu tilefni má líka taka fram að börn sem eru annarrar trúar, fermast borgaralegri fermingu, eða kjósa að fermast ekki, hafa verið algjörlega utanveltu í því fyrirkomulagi sem verið hefur við lýði.

Keðjubréfaruglið

Í dag fékk ég einu sinni enn keðjubréf og í þetta sinn fjallaði innihaldið um gagnsleysi peninga: Þú getur keypt þér rúm, en ekki svefn… þú getur keypt þér kynlíf, en ekki ást, o.s.frv. Þetta er víst einhver kínversk speki. Þeir sem senda keðjubréfið til 20 vina detta í lukkupottinn og í bréfinu eru sögur sagðar þessu til vitnis, um fólk sem varð heppið: Það vann í lottói og eignaðist... já, PENING !!!  Halló?  Ef maður sendir bréfið ekki áfram innan tiltekins tíma, þá hellist yfir mann ógæfa... manni er hreinlega hótað hörmungum! Í bréfinu segir að það sé búið að fara 8 sinnum kringum hnöttinn. Hver telur og breytir bréfinu reglulega til samræmis við fjölda hnattferða? Bréfið er sagt sent af trúboðanum Anthony De Croud. Hverskonar trúboði er það sem hótar fólki öllu illu ef það hlýðir honum ekki, og fer svo á skjön við sín eigin trúarbrögð þar sem mönnum er sagt að treysta guði? Er nema von að maður dragi stundum í efa skynsemi og ályktunarhæfni fólks?

Galdrastafir fyrir örvæntingarfulla stjórnmálamenn!

Pólitíkusar sem þurfa að slá ryki í augu kjósenda geta notað missýningastafinn Óðinn og þeir sem eru hræddir um að hafa vondan málstað geta nýtt sér galdrastafinn Máldeyfu. Vilji menn nota óhefðbundnar leiðir til að vinna kjósendur á sitt band í kosninga- baráttunni er fleiri nothæfa galdrastafi að finna á kosningavef Galdrasýningar á Ströndum. Þetta eru snillingar!

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband