Færsluflokkur: Bloggar

Myndir af Strútsstíg

Í myndaalbúmi hér vinstra megin eru nú komnar nokkrar myndir frá göngu á Strútsstíg í síðustu viku. Fimmtán manna hópur, undir dyggri leiðsögn Silvíu frá Útivist, gekk í fjóra daga og fékk allan veður- og náttúrupakkann sem í boði er; allt frá bongóblíðu yfir í rok og rignginu, svartan sand, hvíta jökla og allt þar á milli.

Vond viðburðastjórnun á Landsmóti hestamanna

Hef það eftir fyrirtækjum sem voru með sýningarbása í reiðhöllinni á landsmótinu á Hellu að þar hafi verið vond viðburðastjórnun í gangi:

1. Umsamin staðsetning á básum í reiðhöll hafi skolast illilega til
2. Það sem fram fór í reiðhöllinni hafi verið illa kynnt fyrir mótsgestum
3. Inngangar í reiðhöll voru ekki alltaf þeir sömu, sem torveldaði aðgengi gesta
4. Tengilið milli sýningaraðila í reiðhöll og mótsstjórnar hafi sárlega vantað
5. Haldnir hafi verið fundir sem sýnendur voru ekki boðaðir á
6. Vegna slælegrar kynningar framan af móti hafi laugardagurinn verið eini dagurinn sem fólksstreymi hafi verið í höllina
7. O.fl. o.fl...

Einnig hefur heyrst frá mörgum knöpum/keppendum að aðstaða og skipulag hafi ekki alltaf verið upp á marga fiska. Miðað við allar þær lýsingar sem ég hef heyrt verður ekki mikið mál að toppa þetta Hellumót á Landsmóti hestamanna á Vindheimamelum í Skagafirði árið 2010, þótt þar sé engin reiðhöllin! Það sem sunnlendingum er helst hrósað fyrir er að veitingasalan hafi gengið vel ;)


Þriðji ísbjörninn dauður og grafinn?

Sú saga fer nú hljóðlega á milli manna, m.a. hjá blaðamönnum í gúrkutíðarham, að þriðji ísbjörninn hafi komið á land ekki alls fyrir löngu, en hafi verið skotinn allsnarlega og urðaður í kyrrþey með álíka hröðum handtökum. Sel það ekki dýrar en ég keypti það. Annars fannst mér gott hjá þjóðfræðingnum hjá Árnastofnun sem sagði, sem svar við þjóðtrúnni um að allt sé þegar þrennt er, að ef þriðji atburðurinn bættist nú við ísbirni og jarðskjálfta, og að í framhaldi af því yrði svartur maður forseti Bandaríkjanna, þá værum við komin með alveg nýja stærð í þessar þrennupælingar LoL

Fjaðrárgljúfrin fallegust

Guðmundur Jónsson í FjaðrárgljúfrumRétt vestan við Kirkjubæjarklaustur er einn af mínum uppáhalds náttúrfyrirbærum íslenskum, Fjaðrárgljúfur. Stígur er upp með bakkanum að austanverðu, þar sem flestir ferðamenn ganga um tveggja km leið og horfa niður í gljúfrið. Mun miklu sterkari upplifun fylgir því hinsvegar að ganga niðrí gljúfrinu. Fjaðráin hlykkjast þar um og til að komast inneftir þarf að vaða hana á nokkrum stöðum. Áin er grunn og straumlítil og auðveld yfirferðar á góðum vaðstígvélum, nú eða bara berum fótum. Þarna inni í gljúfrinu er maður í undraveröld stórfenglegra stapa og bergmyndana og upplifir yfirþyrmandi návígi við náttúru sem seint gleymist.

Hauslausir fuglar

Margur fuglinn þykir góður til matar. Nú styttist í að við félagar förum hina árlegu ferð í Drangey á Skagafirði til að háfa lunda, sem okkur þykir hið mesta lostæti. Annað fiðurfé þykir líka gómsætt; t.d. hænsnfuglar. Áður en menn leggja sér fuglakjöt til munns er betra að aflífa skepnurnar, en það er ekki alltaf fögur sjón. Algengt var hér áður að hænur í sveitinni væru hálshöggnar á bæjarhlaðinu, að heimilisfólki öllu ásjáandi. Ein góð vinkona mín upplifði slíka aftöku þegar hún var aðeins nokkurra ára gömul. Eftir að búið var að höggva höfuðið af hljóp hænan hauslaus um allt hlað og rakst auðvitað á það sem fyrir varð. Vinkona mín var fljót að átta sig á ástæðu þess að hænan hljóp svona blind fram og aftur, og til að hún sæi betur hvert hún var að fara tók hún afhöggvinn hausinn, lyfti honum upp og beindi honum í þær áttir sem hænan hljóp. "Svona, svona" sagði hún huggandi, "nú geturðu séð hvert þú ert að hlaupa!"

Kjaftforir í Kópavoginum

"...verða vitni að því þegar bæjarstjórinn hraunar yfir andstæðinga sína með fúkyrðum og hótunum að sæmilega hraust fólk verður miður sín og sómakærir bæjarbúar fyrirverða sig fyrir þennan embættismann." Loftur Þór Pétursson, um bæjarstjórnarfundi o.fl. í Kópavogi. Morgunblaðið, 13. júní, 2008, bls 24.

Gamli maðurinn og tréð

Fyrir mörgum árum síðan bjó ég í Fredrikstad í Noregi. Við hlið fyrirtækisins sem ég starfaði hjá var Simo barnavagnaverksmiðjan. Einn sólríkan morgun rölti ég mér niður á planið til þeirra og tók tali gamlan mann sem stóð og hallaði sér upp að karmi við stórar lagerdyr. Fljótlega í samtalinu spurði ég hann hvað hann hefði unnið þarna lengi. Hann varð hugsi og horfði upp í hlíðina þarna rétt fyrir ofan, þar sem stóð á berangri eitt það alstærsta tré sem ég hef um ævina séð. Sjáðu þetta tré þarna, sagði hann og benti uppeftir... ég gróðursetti það sem litla hríslu sumarið sem ég byrjaði hérna. Hann hafði unnið þarna hátt í sextíu ár og það var einhver stóísk kyrrð í ánægjusvipnum sem færðist yfir andlitið þegar hann horfði hugsi á tréð sitt.  Við stóðum svo þarna í þögn dágóða stund og horfðum á tréð hans. Ef ég héti Ársæll að seinna nafni hefði ég séð tár á hvarmi, hjá okkur báðum!

Innsetningar og uppákomur...

... já, nú færist fjör í leikinn fyrir austan, á sýningum með þemun innsetningar og uppákomur!

Í mynd dagsins...

... eru fjögur skópör án fóta, en spegilmyndin er á sínum stað.Skór án fóta... höfundur ókunnur!

Skemmtileg hugmynd og vel útfærð.

Góða helgi Wink


Ég er bæði mellari og lallari, en varla smallari

Staldraði stutta stund við í sportvörubúð og verslaði stuttbuxur, bol og sprettskó fyrir sumarið. Komst léttilega í "medium" hlaupabol, en þegar kom að því að velja dry-fit stuttbuxurnar hélt afgreiðsluguttinn "large" buxum á lofti. "Ég held þú þurfir þessa stærð" sagð'ann hugsi og bar okkur saman, mig og buxurnar. Rétti mér svo þessar "large" buxur og sagði ákveðinn: Já, ekki spurning, þú ert "lallari"! Þá veit ég það; maður er bæði mellari og lallari! Og þó að á síðustu misserum hafi horfið allnokkur fjöldi aukakílóa, þá held ég að maður verði nú aldrei "smallari"!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband