Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Stemning í síðasta Stjórnunartíma

Inga með veitingarnarÍ dag var síðasti tíminn í Stjórnun í ferðamálanáminu okkar í Hólaskóla og af þvíStemning í bekknum... vantar því miður ,,jaðarfólkið,, tilefni voru veitingar á boðstólum í skólastofunni. Inga Sig kennari kom með æðislega desertköku, Fía kom með ömmupönnsur með rjóma og sultu og Gunnar Páll kom með sæta "sólberjasaft" sem hafði slakandi áhrif og mýkti stemninguna. Ég held svei mér þá að menn hafi bara öðlast dýpri skilning á stjórnun, sérstaklega kannski gildi umbunar, og að svona skóladagar mættu alveg vera fleiri. Takk þið veitingamenn dagsins!

Hálfrar aldar heillandi óheillakráka

Afmælisbarn dagsinsÞær eru ófáar stundirnar sem þessi misskildi snillingur og húðlati uppátektarsami skrifstofumaður hefur létt manni stund og stytt manni líf. Fimmtíu ár eru síðan hann leit fyrst dagsins ljós, hann sem heitir Guust Flater (á hollensku), Tomás el Gafe (á spánsku), Sergi Grapes (á katalónsku), Gastono Lafus (á esperanto), Niilo Pielinen (á finnsku), Gasa Seprtlja (á serbnesku), Sapsal Gazi (á tyrknesku) og Jo-Jo (á þýsku), en er betur þekktur á Íslandi sem vandræðagripurinn Viggó Viðutan. Varla er við öðru að búast en að hann lendi í klandri í dag sem og aðra daga en það eru alltaf forréttindi að fá að fylgjast með óförunum.

Ofvirkur hljóð- og myndmeistari með njálg...

Sá tvö snilldarskemmtileg myndbönd með Lasse Gjertsen á síðunni hans Jónasar Antons og verð að deila þeim með ykkur. Það er hægt að sjá gaurinn í ham á myspace-síðunni hans; hann er snillingur í hljóð- og myndklippingum. Alveg þess virði að kíkja aðeins á hann, t.d. tvö efstu myndböndin!

Uppskriftin að Bananakökunni okkar Lisbeth

Fyrir 20 árum bjó ég í Noregi. Þar í landi tíðkast að gefa matar- og kökuuppskriftir, ekki selja þær eins og gert er hér á landi. Í auglýsingum á Discovery síðustu vikur sé ég að Norðmenn gera þetta enn. Þeir sem framleiða vörur nota þessa aðferð til að auka sölu og neyslu á sínum vörum og almenningur nýtur góðs af. Ég á enn margar þykkar möppur (u.þ.b. 1 hillumeter) af ókeypis uppskriftum frá Noregsárunum og man vel eftir sjokkinu sem ég fékk þegar ég flutti heim og var rukkaður fyrir ræfilslegan uppskriftabækling sem lá frammi á afgreiðslukassanum.

Þó að heimilishald byggi almennt á góðri samvinnu, þá skapast samt alltaf hefðir og sérhæfing. Einu sinni var ég miklu fremri minni eðlu spúsu í gerbrauðsbakstri, nú hefur hún algjörlega náð yfirhöndinni og er mér margfalt færari á þessu sviði. En ég á mína uppáhaldsköku sem enginn bakar betur en ég. Þetta er "Lisbeth’s gode bananakake", sem er til á lúnu appelsínugulu ljósriti sem Sonjas Mathus í Fredrikstad dreifði frítt til okkar viðskiptavinanna. Kakan hefur þann kost að vera einföld í framleiðslu og bragðast vel, en svo er líka sérlega heillandi að í hráefnisnotkun er miklum hagsýnisjónarmiðum fylgt: Til að kakan heppnist almennilega verður maður að nota þrjá ofþroskaða banana (sem annars væru á leið út í tunnu!). Fyrir hagsýna kökugerðarmenn fylgir hér íslensk útgáfa af Bananakökunni okkar Lisbeth.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Tölvutaugarnar þandar

Ég manaði mig loks upp í dag að láta skipta út móðurborði í tölvugarminum. Þegar hún hafði verið fjarverandi í klukkutíma saknaði ég hennar og hringdi og spurði hvernig gengi. Það gekk illa, gamli tölvukassinn passaði ekki fyrir nýja móðurborðið. Auðvitað var ekkert annað í stöðunni en að skipta honum út líka og þá er nú fátt eftir af tölvunni frá 1997 nema gamla diskettudrifið, sem auðvitað fékk að fljóta með yfir í nýja kassann svona upp á lúkkið, svo er aldrei að vita nema einhver verðmæt gögn leynist enn á diskettum.

Með nýju móðurborði fylgdi öflugri örgjörvi og stærra og hraðvirkara minni og núna líður mér eins og ég hafi stigið af reiðhjóli og upp í formúlubíl, auðvitað McLaren. En það er ekki bara sólskinsbros sem fylgir svona breytingum. Nú eru búnir að fara um 4 klukkutímar af svita og tárum í að leita út um alla vél að tengiliðunum í address-book í póstforritinu, svo að finna alla gömlu inn- og útpóstana (þeir reyndust rúmlega 3000 alls), að maður tali nú ekki um nokkur hundruð ómetanlega verðmætar slóðir í bookmarks. Nú þegar þetta er komið í lag er spretturinn hafinn við að setja aftur inn vírusvörnina, sem vonandi nær að skella í lás áður en bakteríurnar fatta að allt er galopið alveg niður í kviku...............shit!!!  ...það er eitthvað að byrja að blikka hérna.....................


Borgarfjörður eystri 2005

Sumarið 2005 hélt Emilíana Torrini sína fyrstu tónleika í Bræðslunni á Borgarfirði eystri. MagniVolvo Veranda? hitaði upp, þá ekki orðinn Rockstar. Við Króksarar fjölmenntum austur á Bakkagerði og nutum yndislegrar gestrisni heimamanna frá fimmtudegi til mánudags. Fyrir utan tónleikana var ýmislegt brallað, m.a. farið í Kjarvalsgöngu og Hafnarhólmi heimsóttur. Þetta voru eftirminnilegir dagar, og sem betur fer, á tímum forgengilegra minninga, er hluti ferðarinnar til í formi ljósmynda sem nú hefur verið safnað saman í myndaalbúm hér á síðunni. Þeir sem bæta við myndatexta þar sem upp á vantar fá bestu þakkir fyrir.

Sverð í hrauni og hornglas!

Er að vinna verkefni um íslenska minjagripi og hef af því tilefni verið að flakka um netlendur þessaVíkingahjálmar hjá Eymundsson í Austurstræti - Mynd JÞB efnis. Fann ágætlega heilsteypta samsetningu gripa í búð Sögusafnsins í Perlunni, þeir virðast þokkalega í takt við heimildir um forníslenskan raunveruleika. Þar var ekki að finna höfuðföt með hornum, eins og Eymundsson og fleiri bjóða ferðamönnum (sjá mynd), né heldur lundagripi í lange baner. En svo fékk ég nett sjokk á íslenskum minjagripamarkaði hjá Fjörukránni í Hafnarfirði. Þar mátti sjá minjagripinn "Sverð í hrauni", sem er skefti með stuttu blaði, sem stendur upp úr hraungrýti, sem fest er á platta. Einnig var þar, undir liðnum "íslenskt handverk", til sölu kindarhorn með ítroðnu glerglasi, en þetta kallaðist "hornglas!" Sama fyrirbæri mátti reyndar líka finna sem færeyskan minjagrip, en var þá orðinn aðeins dýrari vegna þess að búið var að bæta glærum léttvínsfæti undir hornið! Þarf ekki alveg rótlaust ímyndunarorkuver til að (van)skapa svona lagað?

Vildu ekki framleiðendur eigin sjónvarpsefnis

Þau á Radisson SAS Hótel Sögu þoldu ekki álag umræðunnar og gerðu umdeilda viðskiptavini brottræka, en áttuðu sig svo á því að í sjónvarpskerfinu innanhúss er myndefni sem framleitt er af þessum úthýstu gestum. Tvískinnungurinn varð vandræðalegur, nánast pínlegur. Nú hafa þeir beðið móðurfyrirtækið erlendis um að bjarga sér úr þessari óþægilegu klemmu með því að fá að fjarlægja bláa myndefnið úr sjónvarpskerfi hótelsins. Eins og ég sagði í pistli í gær: Það er af nógu að taka í baráttu gegn klámvæðingu hér heima, en það stendur okkur kannski of nærri?

SAF, Samtök ferðaþjónustunnar hafa í dag bent á hversu ógerlegt sé að yfirheyra eða kanna árlega bakgrunn meira en 400 þúsund erlendra ferðamanna, til að flokka megi þá úr sem eru "okkur" þóknanlegir. Mér myndi reynast erfitt að sinna því siðapostulastarfi svo öllum líkaði; ég myndi kannski byrja á því að taka Bush og Berlusconi út af sakramentinu! Tjón og bótaskylda eru líka hugtök sem heyrast oftar nefnd í þessu samhengi; hver borgar tapið sem flugfélög, veitinga- og afþreyingarfyrirtæki á Íslandi verða nú fyrir, þegar Hótel Saga er búin að taka að sér að úthýsa viðskiptavinum þeirra?


Vel heppnuð markaðssetning?

Mikið hefur verið fjallað um væntanlega heimsókn klámframleiðenda til Íslands í næsta mánuði. Í mínum huga er þetta gott dæmi um múgsefjun, menn espa hvern annan upp og þetta er orðið AÐAL málið í dag, ekki það að klám í ýmsum myndum er fáanlegt á Íslandi og stæði okkur nær að eyða orkunni gegn því. Mikil vinna býður baráttufólks gegn klámvæðingu hér heima, en fundur þessara útlendinga, sem hvorki hafa brotið íslensk lög né lög sinna heimalanda, er það eina sem við viljum sjá núna. Um þetta getum við sameinast; dómstóll götunnar er að störfum! Og menn ætlast til þess að stjórnvöld gerist vænisjúk og brjóti mannréttindi á saklausu fólki eins og á Falun Gong hópnum hér um árið. Ég held að enginn vilji slíka forræðishyggju í raun, þótt einhverjum finnist það réttlætanlegt nú í hita leiksins; í tryllingi þessarar múgsefjunar um flísina í auga náungans.

En svo má líka spyrja hvort við höfum ekki einmitt verið að kalla eftir þessu fólki? Var ekki Icelandair að vonast eftir svona kúnnum þegar þeir auglýstu hér um árið: ”Dirty weekend in Iceland” ... og ”One nigth stand in Reykjavík”? Þessi markaðssherferð á Bandaríkja- og Bretlandsmarkaði, sem fært hefur nafn Íslands og höfuðborgar okkar inn á auglýsingaborða á heimasíðum þessara klámframleiðanda, var með stuðningi íslenska ríkisins og kostuð að hluta af okkar skattfé. Hvaða viðskiptamannahóps var verið að höfða til með þessari markaðssetningu og má ekki bara segja að hún hafi heppnast vel; að markhópurinn sé nú mættur og vilji fá sína "Dirty Weekend"?


Eru Sauðárkrókur og Stykkishólmur ekki á landsbyggðinni?

Í Fréttablaðinu í dag segir að landsbyggðin sé enn án stórs titils í körfubolta, en að Hamar/Selfoss geti í dag, með sigri á ÍR, breytt körfuboltasögunni. Í mínum huga eru stóru titlar ársins í körfunni þrír: Fyrirtækjabikarinn, Bikarkeppni KKÍ (nú Lýsingar) og svo Íslandsmeistaratitillinn. Þó Suðurnesja- og Reykjavíkurliðin eigi langflesta titla í þessum keppnum má ekki gleyma því að bæði Tindastóll og Snæfell hafa hampað fyrirtækjabikarnum. Tindastóll sigraði eftirminnilega árið 1999; vann á laugardeginum lið Njarðvíkur með 14 stiga mun, 76-62, og svo tók svo Keflvíkinga í bakaríið í úrslitaleiknum, vann með 80 stigum gegn 69. Hlutur landsbyggðarinnar í körfuboltatitlum er ekki stór, en honum ber að halda til haga.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband