2.1.2007 | 15:49
Mig langar að lifa átta ár til viðbótar
Í dag er síðasti dagur reykinga minna, sem nú hafa staðið í eitt og hálft ár. Samanlagt hef ég þó líklegast reykt í yfir 25 ár af minni 46 ára ævi. Í dag er ég að undirbúa mig fyrir stóra daginn á morgun. Í kvöld drep ég í síðustu sígarettunni. Ég er þegar byrjaður að brjóta upp mynstur og undirbúa mig andlega. Búinn að skrá hjá mér ýmislegt sem getur hjálpað mér við að lina þjáningar morgundagsins, auk þess að stunda massífa sjálfssefjun með lestri á óþægilegum staðreyndum sem fylgja reykingum. Í bæklingi Hjartaverndar um reykingar koma fram margar mjög svo vondar staðreyndir fyrir okkur reykingarfólk, s.s. skert lífsgæði og töluvert styttri lífslíkur.
Ávinningur þess að hætta að reykja í dag (á þeim aldri sem ég er) gæti verið sá að ég lifði allt að 8 árum lengur en ef ég héldi reykingunum áfram. En hvernig metur maður átta ár sem hugsanlega koma síðar á lífsleiðinni? Það er varla nokkur leið, þetta er óáþreifanleg stærð sem kannski aldrei kemur. En þegar ég hugsa til þess hvað ég hef upplifað marga stórkostlega hluti á síðustu átta árum, þá gæfi ég aleiguna til að fá að halda í þær minningar. Með því að setja árin átta í þetta samhengi skil ég betur hve mikil verðmæti þau geta orðið í lífi mínu og þá fer mig að langa rosalega til að eiga þau inni síðar.
Athugasemdir
Ég óska þér til hamingju með þennan áfanga. Og mundu að ef illa gengur að þú ert ekki bara að eignast átta ár til viðbótar heldur ertu að gefa fjölskyldu og vinum átta ár af þér og með þér.
Gangi þér vel og sjáumst hress á nýrri önn
kv, Villý
Villý (IP-tala skráð) 8.1.2007 kl. 00:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.