Ertu afturhaldssinni eða framfaramaður?

Í Merkigili á leið í Austurdal - Ferðafélag Skagfirðinga 2006 - Mynd: JÞB

Í pistli á skagafjordur.com skrifaði Þórný Jóhannsdóttir í síðasta mánuði um það sem mörgum er hugleikið í Skagafirði síðustu misserin; mögulega virkjun Jökulsánna, kosti þess og galla. Hægt er að mæla með lestri á pistli Þórnýjar í heild sinni, en það sem ég vildi gera að umræðuefni hér er hvernig orðræðan hefur þróast, eða henni beint í ákveðinn farveg.

Svo virðist sem afgerandi gjá hafi verið mynduð milli þeirra sem hlynntir eru virkjun og stóriðju, og þeirra sem eru á móti eða eru uggandi yfir áhrifunum og vilja skoða aðra kosti. Þórný talar um að þeir sem vilja nýta Jökulsárnar og Austurdalinn til annars en að virkja séu nú í umræðunni orðnir öfgafólk, afturhaldssinnar og kaffihúsalið, meðan þeir sem eru fylgjandi virkjun og stóriðju fá annan og jákvæðari stimpil sem framfarasinnar og athafnafólk. Þeir síðarnefndu eru þá dugnaðarforkarnir, en þeir fyrrnefndu ónytjungar sem ekki þarf að hlusta á.

Auðvitað er það afl sem virkjunarsinnar hafa á bakvið sig, þ.e. stjórnvöld, Landsvirkjun, erlend stóriðjufyrirtæki og aðra hagsmunaaðila, bæði fjársterkara og öflugra bakland en hinum stendur til boða. Við sjáum þann leik sem Alcan er að leika með mútugjöfum í ýmsu formi í Hafnarfirðinum til að bæta ímynd sína vegna fyrirhugaðrar stækkunar, en slagkraftur þeirra hlítur að verða margfalt meiri en Sólar í Straumi, sem berjast gegn stækkuninni. Leikurinn er ójafn - það er vitlaust gefið. Er þetta kannski allt spurning um fjármagn, þar sem þeir ríkari verða ávallt ofaná, í ímyndarsköpun, við mótun hugmynda og raunverulegs frelsis til athafna? Eru hugsjónir og önnur hugmyndafræði en þóknast þeim efnameiri deyjandi fyrirbæri á Íslandi framtíðarinnar?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er góður pistill Jón Þór. Það skiptir miklu máli að átta sig á að baráttan sé okkar allra, um allt land. Þannig aukum við slagkraftinn.

Gestur Svavarsson (http://gammur.blogspot.com)

Gestur Svavarsson (IP-tala skráð) 2.1.2007 kl. 10:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband