29.12.2006 | 09:03
Kuldaboli eða móðurlífsbólgur og djöfulskapur
Ýmislegt hefur verið notað á börn í gegnum tíðina til að fá þau til að klæða sig vel út í næðingskalda íslenska vetrarveðráttu. Í minni tíð sem barn var til eitthvað sem hét Kuldaboli og maður var látinn trúa því að hann myndi bíta mann og jafnvel éta ef maður ekki dúðaði sig nægilega í fatnað áður en haldið var út í frostbítandi morguninn. Þetta var löngu fyrir þá tísku að það væri kúl að klæðast kuldagöllum eða flott að ganga með húfu á höfði. Móðuramma mín hótaði líka Kuldabola á dætur sínar tvær, en með misjafnari árangri og þessvegna þurfti hún að bæta enn í og nota til viðbótar annan og öflugri djöful sem hrætt gæti sjálfstætt þenkjandi unglingsstúlkur sem hlógu framan í bola. Orðatiltæki sem hún notaði fyrir hálfri öld síðan er enn brúkað í minni stórfjölskyldu ef einhver klæðir sig ekki nægilega vel út í válynd vetrarveðrin, en þá á viðkomandi, hvort sem hann er karl eða kona, á mikilli hættu að fá "móðurlífsbólgur og djöfulskap," eins og amma orðaði það á sinni kjarnyrtu íslensku. Hún hvarf svo yfir móðuna miklu fyrir nokkrum árum án þess að við fengjum að vita með vissu hvað þessi "djöfulskapur" þýddi, en við hræðumst hann enn og klæðum okkur því alltaf vel þegar illa viðrar.
Athugasemdir
he he segi það sama hver er þessi "djöfulskapur"
Guðrún Ólafía Brynleifsdóttir, 30.12.2006 kl. 01:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.