13.12.2006 | 15:12
Hestar og hundar í íslenskum mannanöfnum
Samkvæmt óstaðfestum heimildum hefur nú verið leyft að börn heiti Mosi og Korka, en þetta eru hvorutveggja gömul og góð íslensk hundsnöfn. Á vef Hagstofunnar má sjá hvaða nöfn eru algengust í dag og hvaða nöfn er verið að gefa nýjum Íslendingum (frá 2000-2004). Þó upplýsingarnar þarna gefi takmarkaða innsýn í heildarþróun og -breytingar á íslenskum mannsnöfnum, þá má bæði hafa gaman að og sjá þarna ákveðið samhengi. Þannig eru einnefnin Sigurður, Guðmundur, Jón og Gunnar á hröðu undanhaldi fyrir Kára, Degi, Bjarka, Alexander og félögum. Svipað er að gerast hjá stelpunum.
Eitt af þeim nýju nöfnum sem farið er að nota er merarnafnið Stjarna og það er ég viss um að Guðni Ágústsson væri ekkert á móti því að þær Huppa og Flekka fengju að fylgja með. Systir mín stakk upp á Sumarsól Hlýju og Frostillu Fönn og mér finnst það bara fín viðbót við skrautlega flóruna sem fyrir er. Nú er víst mannanafnanefnd að hætta og það er kannski eins gott þegar fólk er farið að þrýsta á að fá að nota dýranöfn á börnin sín að maður tali nú ekki um það hvað sumar nafnasamsetningar líkjast orðið ískyggilega þýðingum úr ævintýrabókum æsku minnar um amríska indjána!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.