20.3.2007 | 22:23
Upplýsingamiðstöð Ómars og Margrétar
Ef Margrét og Ómar hefðu fengið listabókstafinn Í til afnota í næstu alþingiskosningum, eins og þau sóttu um, hefðu þau átt vísan fjölda atkvæða frá eldri Ísfirðingum sem sakna sárlega gamla bílnúmersins síns, en Ísafjarðarsýsla hafði sem kunnugt er Í á bílnúmerum meðan það kerfi var og hét. Við skötuhjú áttum einu sinni Fiat Uno með númerinu Í-820, en það er nú önnur saga. Í staðinn fá þau Ómar og Margrét bókstafinn I, sem er ekki broddstafur, en það var ekki bílnúmer neinsstaðar. Það gæti hinsvegar í sinni smærri mynd, sem lítið "i", höfðað til villtra ferðamanna í leit að upplýsingamiðstöð. Ómar myndi að sjálfsögðu fara með þá hálendisrúnt og láta þá kjósa í leiðinni. Þetta er auðvitað hið allra vitlausasta grín og kvöldskrifagalsi hjá mér, því að sjálfsögðu mun stefnuskrá og framboð hæfileikafólks ráða mestu um fylgi við hið nýja Íslandsframboð. Gangi þeim allt í haginn.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:31 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.