Færsluflokkur: Ferðalög

Látnir feður á ferðalagi

Las í morgun í Mogganum um Keith Richards, sem blandaði ösku látins föður síns saman við kókaín og tók hann í nefið – fór á smá trip með gamla! Þá rifjaðist upp sagan sem Siggi Björns segir í laginu Final ride, en hún er um eldri feðga sem alltaf fóru á sunnudögum saman á mótorhjóli um sveitirnar í kringum heimabæ sinn, Fredriksund í Danmörku. Svo dó sá gamli. Þegar hann var búinn að liggja nokkra daga í líkhúsinu þá hvarf líkið. Þetta uppgötvaðist fljótt og var lögregla var kölluð til. Þegar svo lögreglumenn og starfsmenn líkhúss standa þar fyrir utan og ráða ráðum sínum, þá kemur mótorhjól akandi í hlað. Sonurinn ók, en aftan við hann á hjólinu sat látinn pabbinn bundinn, í mótorhjólagalla með hjálm á höfði. Þetta var þeirra síðasta ferð saman.

Alþjóðasamskipti og menningarmunur

Í heimi alþjóðavæðingar er margt að varast í samskiptum við þjóðir sem hafa ólíka siði og menningu. Japanska er t.a.m. annarskonar tungumál en við eigum að venjast, þar sem úir og grúir af sérstökum áherslum og tónbrigðum sem eru síbreytilegar eftir aðstæðum og því hver talar við hvern. Af tillitssemi við Gyðinga er víða ekki boðið upp á ostborgara á stöðum Burger King, því trú þeirra bannar blöndun kjöt- og mjólkurvara. Í Bretlandi er farið að kenna viðskiptaensku sem sumir myndu kalla hálfgert barnamál, en tilgangurinn er að væntanlegir viðskiptavinir finnist þeir frekar á jafningjagrundvelli á fundum. Evrópubúum og Ameríkönum þykir best að tala við fólk í u.þ.b. handleggs- fjarlægð, meðan Arabar vilja standa sem allra næst þeim sem þeir eiga samræður við. Þetta veldur oft skrautlegri sýningu í móttökuboðum, þar sem Arabarnir elta Vestrulandabúana sem ganga viðstöðulítið aftur á bak um allt herbergið.

Aðstoðum Hallbjörn við að opna Útvarp Kántrýbæ aftur!

Hallbjörn HjartarsonKúreki Norðursins er í vanda, hann vantar nokkrar krónur til að geta opnað aftur útvarpsstöðina sína. Við sem tengjumst Norðvestur- landinu, ferðumst í gegnum Húnvatsnssýslur þar sem útsendingar heyrast, eða erum áhugafólk um kántrýtónlist, hugsjónastarfsemi, landsbyggðarsérstöðu, Skagaströnd, eða bara hina þjóðþekktu guðhræddu hlýju manneskju Hallbjörn Hjartarson, eigum við ekki að láta nokkrar krónur af hendi rakna svo að Útvarp Kántrýbær gæti byrjað útsendingar aftur? Væri það ekki góð tilfinning að geta látið t.d. 1000 krónur af hendi rakna og myndað þar með þann hóp af fallega hugsandi fólki sem endurreisti Útvarp Kántrýbæ vorið 2007?

Reikn.nr: 0160-26-3906

Kt: 050635-3849


Hlutverk bílstjórans batnar ekki með aldrinum

Við hjón stoppuðum á bensínstöð í Borgartúni í gærdag til að fá okkur beikonpylsu og pappírsbolla af Kaffitári. Meðan við stóðum við afgreiðsluborðið kom inn gamall maður og honum var mikið niðri fyrir. Fyrst var hann svo óðamála að við skildum ekkert, nema eitthvað: "…eldri borgara…". Svo róaðist hann aðeins og sagðist þá ekki ánægður með hvað menn skiptu ört um nafn á hótelum borgarinnar. Hann sagðist vera akandi með sinni eiginkonu, en þau hefðu villst af leið. Hann sagði að þau væru á leið á eldriborgarafund og hefðu verið að leita að Hótel Nordica, "…þessu sem áðureldri ökumenn hét Park-eitthvað, áður en þeir skýrðu það svo Holiday Inn. Óþolandi hvað alltaf er verið að breyta um nöfn á þessu!"

Eftir smá vangaveltur fundum við út í sameiningu hvert ferðinni væri heitið og vísaði ég honum til vegar þannig að kann kæmist á leiðarenda sem stysta leið. Hann lét mig svo tvítaka leiðarlýsinguna hægar og einbeitti sér mikið þegar hann endurtók það sem ég sagði. Með það þakkaði hann kærlega fyrir sig og fór út, en kom svo aftur inn um hálfri mínútu síðar, kvíðinn á svip, horfði biðjandi á mig og sagði: "Viltu segja mér þetta einu sinni enn svo ég villist nú ekki meira, konan mín er búin að skamma mig svo rosalega!"


Borgarfjörður eystri 2005

Sumarið 2005 hélt Emilíana Torrini sína fyrstu tónleika í Bræðslunni á Borgarfirði eystri. MagniVolvo Veranda? hitaði upp, þá ekki orðinn Rockstar. Við Króksarar fjölmenntum austur á Bakkagerði og nutum yndislegrar gestrisni heimamanna frá fimmtudegi til mánudags. Fyrir utan tónleikana var ýmislegt brallað, m.a. farið í Kjarvalsgöngu og Hafnarhólmi heimsóttur. Þetta voru eftirminnilegir dagar, og sem betur fer, á tímum forgengilegra minninga, er hluti ferðarinnar til í formi ljósmynda sem nú hefur verið safnað saman í myndaalbúm hér á síðunni. Þeir sem bæta við myndatexta þar sem upp á vantar fá bestu þakkir fyrir.

Myndir af Ferðamáladeild í Færeyjum

Ferðamáladeild í skútsiglingu í Færeyjum. Mynd: Jón Þór  Að lokinni vorönn í hitteðfyrra fór hópur ferðamálanema og -kennara úr Háskólanum á Hólum í stórskemmtilega ferð til Færeyja. Gist var í Þórshöfn og farið í mislangar ferðir þaðan, m.a. í dagsferð í boði Ferðaráðs Föroya. Einnig heimsóttum við Kirkjubæ og sigldum fyrir seglum á gamalli skonnortu, en um þetta ferðalag allt hefur nú verið sett inn allravænsta myndasería sem telur rúmar fjörutíu myndir. Þeir sem þekkja sig sjálfa þarna en eru ekki nafngreindir mega gjarna setja inn viðbætur í "athugasemdir"; fyrirfram þakkir fyrir það. Myndaalbúmið má finna hér til vinstri á síðunni, eða með því að smella hér.

Breskir ferðamenn tengjast hvölunum mest

Rakst á könnun frá 2002 um hvalveiðar, hvalaskoðun og ferðamennsku, sem RHA vann fyrir Ferðamálasetur, en hún var gerð meðal ferðamanna, Íslendinga og útlendinga, um borð í bátum hjá þremur hvalaskoðunarfyrirtækjum. Þar var að finna töflu (mynd 6, bls.13) um ástæður fyrir komu ferðamanna til landsins; hvort hvalaskoðun hefði þar haft áhrif. Greint var eftir þjóðerni og sjaldnast hafði hvalaskoðun haft teljandi áhrif (í minna en 20% tilvika). Nema hjá Bretum, þeir skáru sig nokkuð mikið úr hópnum. Um 300 engilsaxneskir svöruðu könnuninni og rúmlega helmingur þeirra (156) játti því að hvalaskoðun hefði haft áhrif á ákvörðun um að koma hingað til lands. Þessi niðurstaða hefur ekkert alhæfingargildi, en gefur vísbendingu um sérstöðu Breta í þessu máli.

Nú verður mér hugsað til þess að það eru einmitt Bretar sem hafa mótmælt hvað mest nýhöfnum hvalveiðum okkar í atvinnuskyni og því vil ég brýna fyrir tölfræði- spekúlöntum í ferðaþjónustu að halda vöku sinni og fylgjast vel með því hvort breytingar verða á komum Breta hingað næstu tvö sumur (þegar hvalaskoðun er í blóma), en gera verður ráð fyrir að áhrif ættu að hafa komið fram á þeim tíma, ef einhver eru. Bretar skipta okkur verulegu máli í ferðaþjónustu og því verður fróðlegt að sjá hvort þeir, sem virðast af framangreindu tengjast hvalamálum mest, dragi úr ferðalögum til Íslands ef við höldum veiðunum áfram.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband