Færsluflokkur: Menning og listir

Sverð í hrauni og hornglas!

Er að vinna verkefni um íslenska minjagripi og hef af því tilefni verið að flakka um netlendur þessaVíkingahjálmar hjá Eymundsson í Austurstræti - Mynd JÞB efnis. Fann ágætlega heilsteypta samsetningu gripa í búð Sögusafnsins í Perlunni, þeir virðast þokkalega í takt við heimildir um forníslenskan raunveruleika. Þar var ekki að finna höfuðföt með hornum, eins og Eymundsson og fleiri bjóða ferðamönnum (sjá mynd), né heldur lundagripi í lange baner. En svo fékk ég nett sjokk á íslenskum minjagripamarkaði hjá Fjörukránni í Hafnarfirði. Þar mátti sjá minjagripinn "Sverð í hrauni", sem er skefti með stuttu blaði, sem stendur upp úr hraungrýti, sem fest er á platta. Einnig var þar, undir liðnum "íslenskt handverk", til sölu kindarhorn með ítroðnu glerglasi, en þetta kallaðist "hornglas!" Sama fyrirbæri mátti reyndar líka finna sem færeyskan minjagrip, en var þá orðinn aðeins dýrari vegna þess að búið var að bæta glærum léttvínsfæti undir hornið! Þarf ekki alveg rótlaust ímyndunarorkuver til að (van)skapa svona lagað?

Sjarmatröll á sauðskinnskóm

Alþýðulist í Upplýsingamiðstöð ferðamanna í VarmahlíðFór ásamt Valla bekkjarbróður í vettvangsferð í gær í Upplýsingamiðstöðina í Varmahlíð, þar sem Alþýðulist (félag skagfirsks handverksfólks) selur vörur sínar. Komst að því að Rósaleppar voru notaðir innan í skinnskó til að einangra fætur frá kaldri jörð og að Sjónabók er gömul bók sem sýnir munstur sem notuð voru á púða, veggteppi og ábreiður til forna. Þarna var mjög margt fróðlegt og fallegt að sjá og ekki var verra að hitta á formann félagsins til að fá frekari útskýringar og umræður um hlutina, en því miður virðist oft skorta nokkuð á að nytsamar og söluvænar upplýsingar fylgi með gripunum. Lopapeysur með skagfirskum sérkennum héngu þarna í röðum og auðvitað var ein tegundin með mynstri sem heitir “Undir bláhimni”; skárra væri það nú.

Meðan ég tók myndir og gramsaði í handverkinu jós Valli úr viskubrunnum sínum um söluvænleg vöru- og verlsunartrix og leiddi þær stelpur í allan sannleikann um hvað virkaði vel á útlendingana. Auðvitað gat þetta ekki farið öðruvísi en svo að hann heillaði þær alveg upp úr sauðskinnsskónum, sem leiddi til þess að áður en við kvöddum vorum við beðnir um að skilja eftir símarnúmerin okkar. Þetta var voða sætt, en ég verð nú samt held ég að kyngja þeirri bitru staðreynd að auðvitað var það bara númerið hjá sjarmatröllinu sem þær vildu komast yfir.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband