Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Jeppi á fjalli, ég er hann!

Guðmundur Jónsson hjá jeppa á fjalliFórum feðgar á fjall á fjóhjóladrifna jepplingnum í morgun. Horfðum í björtu veðri yfir Skagafjörðinn víðan og nutum froststillunnar. Sáum hvorki né heyrðum í rjúpu í fjallakyrðinni, önduðum að okkur fersku loftinu og ræddum um útsýnið: Eyjarnar þrjár, vötnin, fjöllin í kring og álfabyggðir í Hegranesi. Sáum kollinn á Molduxa þar sem við stóðum hreyknir síðastliðið sumar, ásamt mömmum okkar, og skrifuðum nöfn okkar í gestabók. Allt lítur öðruvísi út þegar maður er hátt uppi.

Hættuleg hugmyndafræði um velferð og efnahag

reiður strákurHugmyndafræði þeirrar langþreyttu stjórnar sem senn lætur af völdum hefur byggst á því að efnahagslífið sé undirstaða mennta- og velferðarkerfisins. Margir eru hinsvegar þeirrar skoðunar að þarna sé málunum snúið á haus; vænlegra væri að byggja upp öflugt og traust velferðarkerfi, sem veitir okkur og börnum okkar jafnari tækifæri í lífinu, t.d. hvað varðar menntun og heilbrigðisþjónustu, og að slík fjárfesting í fólkinu í landinu sé í raun traustasti grunnur þess að atvinnu- og efnahagslíf geti blómstrað. Það mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag að í dag eru að alast upp börn sem búa við mikinn ójöfnuð og skert lífsgæði. Þetta hafa Sjálfstæðismenn aldrei skilið, þótt þeir gefi annað í skyn rétt fyrir kosningar!

Hvaða Hip Razical lag er best?

Síðastliðna nótt komu Hip Razical að sunnan úr Mix ehf., hljóðveri Jóns Skugga, með þrjú lög sem þeir tóku upp um helgina. Þetta eru fyrstu lögin þeirra sem eru hljóðrituð. Þau eru nú komin í spilarann hér til vinstri, en fyrir neðan hann er skoðanakönnun, um hvert laganna þriggja, It Stays the Same, O.D. eða Untrue Stories, þér finnst best.

Látnir feður á ferðalagi

Las í morgun í Mogganum um Keith Richards, sem blandaði ösku látins föður síns saman við kókaín og tók hann í nefið – fór á smá trip með gamla! Þá rifjaðist upp sagan sem Siggi Björns segir í laginu Final ride, en hún er um eldri feðga sem alltaf fóru á sunnudögum saman á mótorhjóli um sveitirnar í kringum heimabæ sinn, Fredriksund í Danmörku. Svo dó sá gamli. Þegar hann var búinn að liggja nokkra daga í líkhúsinu þá hvarf líkið. Þetta uppgötvaðist fljótt og var lögregla var kölluð til. Þegar svo lögreglumenn og starfsmenn líkhúss standa þar fyrir utan og ráða ráðum sínum, þá kemur mótorhjól akandi í hlað. Sonurinn ók, en aftan við hann á hjólinu sat látinn pabbinn bundinn, í mótorhjólagalla með hjálm á höfði. Þetta var þeirra síðasta ferð saman.

Hip Razical í Músiktilraunum 2007 á laugardag

Hip Razical - Jón Atli, Davíð, Snævar og Styrkár - Mynd: JÞB 2007Bílskúrsbandið okkar hér í Barmahlíð á Krók er nú að á sinni síðustu æfingu fyrir úrslit Músiktilrauna 2007 sem fram fara á laugar- dag í Listasafni Reykjavíkur Hafnarhúsi. Þeir Davíð, Snævar, Styrkár og Jón Atli hafa eytt stórum hluta vikunnar í undirbúning; tónlistarlegan sem andlegan. Lögin It stays the same, Untrue Stories og OD hljóma orðið þétt og fagmannlega útfærð. Seinna í dag fer þetta framtíðarinnar stórband Hip Razical suður á bóginn, því hljóðprufur og fundur eru snemma í fyrramálið. Foreldrar sem og aðrir aðdáendur eru spenntir og ætla að fjölmenna af Krók á þennan hápunkt tónlistarferils strákanna. Miðasala hefst kl. 16, miðaverð er kr. 1.000,- og fyrstu hljómsveitir stíga á svið kl. 17.
Áfram Hip Razical!!!


Skíðaleyndarmál Norðurlands

Jón Þór á bretti í Tindastóli, 28.mars 2007 - Mynd: Valgeir Ægir IngólfssonÁ Norðurlandi eru mörg góð skíðasvæði, misvel þekkt eða vinsæl. Þar er líka boðið upp á þjónustu sem á ekki sinn líka á Íslandi, og ef hennar nyti ekki við þá hefðu margar barnafjölskyldur aldrei séð sér fært að endurnýja skíða- og brettabúnað barna sinna reglulega. Skíðasvæðið sem hér um ræðir er í Tindastóli í Skagafirði, aðeins 280 km frá Reykjavík (ca. 3 tímar í akstur). Þar er stórt og gott svæði með frábærum brekkum, fyrir bretta- skíða- og göngufólk. En það sem meira er, í Tindastóli fer óvenju vel um skíðafólk því þar eru nánast aldrei þrengsli í brekkum eða biðraðir við lyftu. Hægt er að gista og fá góða þjónustu víða í nágrenninu (Skagaströnd, Sauðárkrókur, Varmahlíð, Blönduós og í bændagistingu).

Hitt leyndarmálið, þjónustan sem að framan var getið, er með allan skíðaútbúnað, notaðan og nýjan. Þetta er að sjálfsögðu Skíðaþjónustan á Akureyri, þar sem Viddi og co.  sinna viðskiptavinum af fagmennsku og alúð. Þar er hægt að kaupa notaðan búnað, koma svo síðar þegar krakkarnir hafa stækkað, og greiða sanngjarna milligjöf fyrir skipti á stærri brettum, skíðum eða skóm. Skíðasvæðið í Tindastóli og Skíðaþjónustan á Akureyri eiga bestu þakkir skyldar fyrir að hafa fært mér og fjölskyldu minni ómælda ánægju síðustu ár.


Hip Razical áfram í úrslit Músiktilrauna 2007

Davíð Jónsson söngvari og lagasmiður Hip Razical í sæti söngvara Incubus, sem kvittaði fyrir sig á vegginn á Hamborgarabúllu TómasarEftir taugatrekkjandi hálftíma bið skokkaði Óli Palli á svið og tilkynnti úrslit kvöldsins: Dómnefndin valdi Hip Razical frá Sauðárkróki til að spila á úrslitakvöldi Músiktilrauna 2007! Að sjálfsögðu brast á með miklum fögnuði í herbúðum Hip Razical við þessar gleðifréttir, en auk hljómsveitarinnar voru mættir í Loftkastalann um tugur dyggra stuðningsmanna úr Skagafjarðar- og Húnavatnssýslu. Tvær aðrar hljómsveitir komust áfram þetta kvöldið, Custom, með atkvæðum áheyrenda og stuðningshóps síns, og Shogun, einnig með dómnefndaratkvæði. Úrslit Músiktilrauna 2007 verða að viku liðinni, laugardaginn 31. mars, en þá má heyra í Hip Razical og hinum hljómsveitunum í beinni á Rás 2, auk þess sem Sjónvarpið tekur upp og sýnir síðar.

Hip Razical í Loftkastalanum í kvöld

Hip Razical - mynd: JÞBFjórða undankvöld Músiktilrauna 2007 er í kvöld fimmtudag og þar mun hljómsveitin Hip Razical frá Sauðárkróki stíga á svið og flytja tvö frumsamin lög, It stays the same og Untrue stories eftir Davíð Jónsson gítarleikara og söngvara. Styrkár Snorrason mun lemja húðirnar, Jón Atli Magnússon leikur af alkunnri snilld á rafgítar og Snævar Örn Jónsson plokkar bassann. Fjölskyldan úr Barmahlíðinni fjölmennir að sjálfsögðu á staðinn og stendur við bakið á sinni bílskúrshljómsveit. Loftkastalinn opnar kl. 18, fyrsta hljómsveit af þeim tíu sem spila í kvöld keyrir í gang kl. 19 og miðaverð er 700 kr. Allir eru velkomnir, sérstaklega verður vel tekið á móti nágrönnum sem hafa þurft að þola hávaðann úr bískúrnum síðustu þrjú ár.

Aðstoðum Hallbjörn við að opna Útvarp Kántrýbæ aftur!

Hallbjörn HjartarsonKúreki Norðursins er í vanda, hann vantar nokkrar krónur til að geta opnað aftur útvarpsstöðina sína. Við sem tengjumst Norðvestur- landinu, ferðumst í gegnum Húnvatsnssýslur þar sem útsendingar heyrast, eða erum áhugafólk um kántrýtónlist, hugsjónastarfsemi, landsbyggðarsérstöðu, Skagaströnd, eða bara hina þjóðþekktu guðhræddu hlýju manneskju Hallbjörn Hjartarson, eigum við ekki að láta nokkrar krónur af hendi rakna svo að Útvarp Kántrýbær gæti byrjað útsendingar aftur? Væri það ekki góð tilfinning að geta látið t.d. 1000 krónur af hendi rakna og myndað þar með þann hóp af fallega hugsandi fólki sem endurreisti Útvarp Kántrýbæ vorið 2007?

Reikn.nr: 0160-26-3906

Kt: 050635-3849


Árshátíð Háskólans á Hólum

Myndasýningar hrossanema vöktu mikla hrifninguSíðastliðið laugardagskvöld hélt Hólaskóli árshátíð sem var afar vel heppnuð í alla staði. Af því tilefni hafa ljósmyndir af glaðværum gestum verið settar inn í myndasyrpu hér á síðunni, sem áhugasamir geta nálgast með því að smella hér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband