Færsluflokkur: Bloggar

Tyggjóið í búðirnar, tóbakið í apótekin?

Lyfsalar vara við því að nikótínlyf verði seld í almennum verslunum; eru með hræðsluáróður um að neysla þeirra muni aukast og að skorti muni uppá faglega ráðgjöf. Flestir neytendur “nikótínlyfja” eru að nota tyggjó til að losna við sígaretturnar, og það þarf ekki mikla ráðgjöf í að velja stærð á pakkningu, með hvaða bragði tyggjóið er, eða hvort það er 2mg eða 4mg. Nikótínlyf eru á okurverði í apótekum og ég er að vona að þau lækki talsvert við að fara í matvörubúðir og bensínstöðvar. Má ekki bara bæta lyfsölum tekjumissinn með því að leyfa þeim að veita ráðgjöf við sölu á sígarettum, sem eru jú hundraðfalt hættulegra efni en umrædd hjálparlyf?

Nærbuxnaleysi getur bjargað mannslífi

Gunna vinkona gekk Laugaveginn með gönguhópi og leiðsögumanni. Skyndilega skellur á snarvitlaus norðanbylur, þannig að hópurinn verður að leita í var. Hitastig féll hratt og Gunnu var fljótlega orðið mjög kalt; skalf af einhverjum ástæðum mun meira en allir hinir í gönguhópnum. Engin venjuleg ráð dugðu til að hún næði í sig hita. Fararstjórinn, sem var farinn að hafa áhyggjur af Gunnu, sneri sér skyndilega að henni, eins og hann hafði fengið hugljómun, og spurði: Í hvernig nærbuxum ertu? Gunnu fannst spurningin dónaleg og sagði að honum kæmi það ekki við. Þá gerði hann sér lítið fyrir og fór ofan í ytri buxurnar hennar, togaði nærbuxurnar upp með síðunni, og sagði, með svona aha!-svip: Ertu frá þér kona, þú ert í bómullarnærbuxum... og þær orðnar rennblautar af svita á göngunni. Ekki þótti ráðlegt né mjög fýsilegt að Gunna, skjálfandi á beinum með glamrandi tennur, fækkaði fötum til að losa sig við blautar brækurnar. En það fannst önnur og betri lausn. Leiðsögumaðurinn fékk leyfi hennar til að toga nærbuxurnar lítillega uppúr beggja vegna, og svo skar hann með vasahnífnum sínum á strengina. Naríurnar voru svo togaðar léttilega uppúr föðurlandinu sem hún var í næst klæða. Innan tveggja mínútna var Gunnu orðið álíka hlýtt og hinum í hópnum og hún hefur haft orð á því æ síðan að hún hafi aldrei verið jafn þakklát nokkrum karlmanni fyrir að ná sér úr nærbuxunum.

Orðasambönd með margræðar merkingar

Það er oft mjög örvandi að leika sér með tungumálið okkar fallega. Menn geta farið mis stutt eða langt með merkingu orða og orðasambanda, allt eftir notkun og samhengi. Eins og í nýlegum auglýsingum Umferðastofu o.fl. um að deyja ekki úr þreytu. Ég hef stundum fengið börn til að spá í ýmis orð sem nota má í fleiri en einum tilgangi; orð sem fá nýja meiningu ef notuð í öðru samhengi. Það rifjast upp fyrir mér mörg undrandi og jafnvel skelfd barnaandlit í gegnum tíðina, þegar ég hef bent krökkum sem narta í afrakstur nefbors á að það geti verið lífshættulegt; fjöldi manns í fátækum löndum deyi daglega úr hor.

Ekki þorandi að segja hvað sem er

Fyrir margt löngu var ungur drengur í skóla á Krók að læra stafrófið. Hann var fljótur að tileinka sér allt sem hann lærði og kunni snemma veturs alla stafina, nema einn. Hann var alveg ófáanlegur til að segja ell. Svona gekk þetta fram á vor, hann þuldi umbeðinn alla bókstafina í réttri röð, en hoppaði alltaf yfir ell. Þegar á endanum dróst uppúr honum af hverju hann gerði þetta, þá var skýringin sú að þetta væri mjög varasamur stafur, gæti hreinlega verið lífshættulegur. Til vitnis þessu nefndi hann dæmi; amma hans hafði dáið úr elli.

Brúsakallar á ferð

Farsíminn minn hringdi fyrir stundu. Í símanum var mannsrödd sem ég ekki kannaðist við. Sæll, segir maðurinn, ég er vinur hans Ragnars. Hvaða Ragnars? spyr ég. Ég er að tala um brúsa, segir hann þá dularfullur í rómnum, svona eins og útúr kú og korti. Ég veit ekkert um hvað þú ert að tala, segi ég... brúsa, hvað meinarðu? Nú, segir hann og lækkar röddina, ég er að tala um....ehe... landa, þú skilur. Ég veit ekki hvað þú ert að tala um og á því miður engan landa handa þér, hvorki á brúsa né í öðrum ílátum. Ég er þá að hringja í vitlaust númer, segir hann vandræðalegur. Fyrirgefðu ónæðið, þú og öll þín fjölskylda, elsku kallinn minn, fyrirgefðu mér þetta.


Nýjar myndasyrpur

Loksins er að færast líf aftur í innsetningu mynda hér á síðunni, í dag hafa dottið inn myndir af ættarmóti, brúðkaupi og svo nokkurra ára samsafn mynda úr Drangey, bæði frá ferðum þar sem lundi var háfaður og einnig úr leiðöngrum til að ná í egg. Hægt er að sjá myndirnar með því að smella hér til vinstri, á myndaalbúm.

Björk í Hong Kong í gær

Kínversk vinkona mín brá sér bæjarleið í gær frá Shenzhen, á Volta-tónleika Bjarkar Guðmundsdóttur í Hong Kong. Hún er alveg í skýjunum í dag, en dauðþreytt í fótum og kroppi eftir að hafa dansað allan tímann fyrir framan sviðið. Enn suðar fyrir eyrum eftir kraftmikla tónlistina, sem hún segir hafa verið töfrum líkasta, þannig að hún varð fyrir áhrifum sem kölluðu fram bæði tár og fullt af tilfinningum. Þeir sem dá tónlistargaldra Bjarkar vita að þetta hendir auðveldlega hrifnæmar manneskjur, enda engin venjuleg tjáning sem Björk getur framkallað með sínum töfrabarka. Það er þó að skilja á minni kínversku vinkonu að Björk sé orðin þekkt fyrir fleira en tónlistarflutning sinn og því hafi sumir orðið fyrir vonbrigðum með að hún skyldi aðeins nota einn búning; það hafi verið helsti galli tónleikanna að hún hafi verið í einu og sama dressinu allan tímann! Einhverjir vankantar voru líka á sándi og skipulagi tónleikanna, en það kom ekki í veg fyrir að vinkonan færi yfir sig hrifin og hamingjusöm með ferjunni heim í gærkvöldi.

Ekki enn sjálfstæð þjóð?

Eru enn á meðal vor fólk sem finnst við vera undir Dönum, eins og í den, og það ástæðan fyrir því að þessi frétt er hér á mbl.is undir liðnum innlent? ;)
mbl.is Dregur úr hagvexti í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áningarstaðir og upplýsingaskilti fyrir ferðalanga

Hluti af verkefni sem ég stýri þessa dagana hefur kallað á upplýsingar til að setja inná kort fyrir ferðamenn í Skagafirði. Um er að ræða áningarstaði þar sem hægt er leggja bílnum, fræðast af upplýsingaskiltum eða tylla sér á bekk til að borða nestið sitt. Fornleifavernd, Þjóðminjasafnið og Vegagerðin eru helstu stofnanir sem framkvæmt hafa í þessa veru og eru víða fallegir áningarstaðir með áhugaverðum upplýsingum. Hinsvegar er alveg skelfilegur skortur á að upplýsingar um þessa staði séu aðgengilegar, t.d. á internetinu. Það skal tekið fram að starfsmenn umræddra stofnana hafa verið boðnir og búnir að svara spurningum og leiðbeina, en þetta á bara ekki að vera svona flókið. Að mínu mati er aðkallandi að bæta og auðvelda aðgang almennings að þessum upplýsingum á internetinu, því upplýsingar á þessum áningastöðum fræða og hvetja ferðamenn til að kanna betur landið sitt, kynnast nánar okkar fornu menningu og merkilegum sögustöðum.

Æri-Tobbi mætir á laugardag

Að yrkja óðarskoruna er það lítils vert. Þú reiðst þarna um boruna, sem ég hafði gert. Öldu briks við úlfasker ára disk á krúnkum, við nökkva briksinn Nikulás, Nikulás priks á priksum. Falleg ertu flaðin þín fólsku randa kurða, Gunna lurða gaðin þín gotsins randa snurða. Ambimbamb og umbum bumba öx indæla skrúfara rúfara skrokkin væla, skrattinn má þeim dönsku hæla. Imbrum kimbrum æsingu, úti regn með fjúki. Hefurðu ekki, sæ sem sur, síðhempu að ljá mér...Arnoddur? Nýársdagur kominn er, fólkið er við kirkju, ekki kemur það nú heim norðanhríð og harka. Aplamjólkin eykur skjólka fleytu burða jólkur bar svo vel Blálandshólkinn Ótúel.

Ég hlakka óstjórnlega til að upplifa þessa snilld og þetta séríslenska eyrnakonfekt í boði Hins Íslenska Þursaflokks á laugardaginn kemur. Allur þessi pakki er svo einstakur að hann verður aldrei toppaður.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband