Rógburður ríður um héruð

Það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég rakst á umræðu spjallverja á skagafjordur.com að sem unglingur ólst ég upp við margar mergjaðar sögur af nafngreindum bæjarbúum. Sumar voru ósköp sakleysislegar meðan aðrar voru nokkuð illkvittnar og meiðandi. Þær skutu alltaf upp kollinum öðru hvoru í umræðum manna á milli, stundum í aðeins breyttri mynd, en alltaf um sömu einstaklinga. Og í hvert skipti sem maður sá viðkomandi, datt manni sagan í hug. Annaðhvort hló maður innra með sér eða fann til með honum, allt eftir eðli sögunnar, en maður var sjaldnast í nokkrum vafa um að menn hefðu lent í því sem sagt var.

Nokkrum árum síðar bjó ég í bæjarfélagi á öðru landshorni. Eftir því sem vikurnar liðu fóru gömlu sögurnar sem ég þekkti að heiman að skjóta upp kollinum ein af annarri í frásögnum innfæddra. Munurinn var bara sá að nú fjölluðu þær um nafngreinda menn í þeirra samfélagi. Sagnamenn sögðust meira að segja hafa í eigin persónu orðið vitni að sumum þeirra ef maður dró í efa sannleiksgildið. Smám saman varð mér ljóst að þessar sömu sögur voru á ferð víðsvegar um landið, en oftast höfðu þær verið stílfærðar upp á aðstæður og einstaklinga í nærsamfélaginu; fjölluðu um einhverja sem allir á svæðinu könnuðust við og lá vel við höggi. Oftar en ekki er um sömu sagnaglöðu einstaklingana að ræða sem bera út svona Gróusögur um sveitunga sína. Skyldi þetta enn vera stundað og ætli þetta sé eitthvert séríslenskt fyrirbæri?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband