Nærbuxnaleysi getur bjargað mannslífi

Gunna vinkona gekk Laugaveginn með gönguhópi og leiðsögumanni. Skyndilega skellur á snarvitlaus norðanbylur, þannig að hópurinn verður að leita í var. Hitastig féll hratt og Gunnu var fljótlega orðið mjög kalt; skalf af einhverjum ástæðum mun meira en allir hinir í gönguhópnum. Engin venjuleg ráð dugðu til að hún næði í sig hita. Fararstjórinn, sem var farinn að hafa áhyggjur af Gunnu, sneri sér skyndilega að henni, eins og hann hafði fengið hugljómun, og spurði: Í hvernig nærbuxum ertu? Gunnu fannst spurningin dónaleg og sagði að honum kæmi það ekki við. Þá gerði hann sér lítið fyrir og fór ofan í ytri buxurnar hennar, togaði nærbuxurnar upp með síðunni, og sagði, með svona aha!-svip: Ertu frá þér kona, þú ert í bómullarnærbuxum... og þær orðnar rennblautar af svita á göngunni. Ekki þótti ráðlegt né mjög fýsilegt að Gunna, skjálfandi á beinum með glamrandi tennur, fækkaði fötum til að losa sig við blautar brækurnar. En það fannst önnur og betri lausn. Leiðsögumaðurinn fékk leyfi hennar til að toga nærbuxurnar lítillega uppúr beggja vegna, og svo skar hann með vasahnífnum sínum á strengina. Naríurnar voru svo togaðar léttilega uppúr föðurlandinu sem hún var í næst klæða. Innan tveggja mínútna var Gunnu orðið álíka hlýtt og hinum í hópnum og hún hefur haft orð á því æ síðan að hún hafi aldrei verið jafn þakklát nokkrum karlmanni fyrir að ná sér úr nærbuxunum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband