8.12.2007 | 10:38
Ævintýri Snússa litla í Kína – 4. hluti
Í dag tókum við Snússi rólegan laugardag í Sekou; röltum um og fylgumst með mannlífinu í sólskininu. Í bænum var komið við í banka til að skipta dollurum, og það tók nú drjúga stund. Fyrst fyllti ég út eitt eyðublað, svo fyllti bankastarfsmaðurinn út tvö eða þrjú í viðbót, svo tók hann afrit af passanum mínum, en þá tók við reikistefna þriggja starfsmanna í allnokkra stund. Áður en yfir lauk hafði ég undirritað fjórum sinnum og tíminn sem það tók að skipta þessum fáeinu dollurum yfir í Yuan Renmimbi var um það bil tuttugu mínútur! Ekki sérstaklega skilvirkt það. Svo fórum við Snússi með fullt af Kínverjum út á jarðberjaakur, þar sem við týndum okkar eigin ber í körfu. Þarna var skemmtileg fjölskyldustemning í rúmlega tuttugu stiga hita; allir vönduðu sig við að stika stígana og týna fallegustu berin. Gömul kona með stráhatt vigtaði svo og rukkaði við hliðið á leiðinni út. Hún var með skiptimyntina í hátísku Gucci veski hangandi utan á sér, en þau fást hér fyrir lítið fé, í landinu þar sem kaffibollinn á hótelinu kostar meira en leigubíll í fimmtán mínútur (eða uþb 200 krónur). Kvöldið er svo frátekið fyrir stórdinner hópsins sem tengist Medialite hér í Kína.
Meginflokkur: Ferðalög | Aukaflokkar: Bloggar, Viðskipti og fjármál, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:43 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.