10.4.2007 | 13:27
Sjálfstæðisflokkur - stórhættulegt afturhaldsafl?
Það er ekki fögur lýsing dregin upp af Sjálfstæðisflokknum þegar afstaða (les: andstaða) hans í helstu framfaramálum þjóðarinnar er rifjuð upp í Morgunblaðinu í dag, en þar er flokkurinn kallaður regnhlífarsamtök sérhagsmunahópa. Ríkisforræði og forsjárhyggja koma oftar fyrir í tengslum við þennan flokk en flesta aðra. Evrópuaðild er ekki á dagskrá, þeir tala um að við megum ekki afsala okkur fullveldinu. Staðreyndin er að 80% af löggjöf ESB er innleidd hér án þess að við fáum nokkuð um mótun hennar að segja. Værum við ekki meira fullvalda ef við hefðum þarna einhver áhrif? Þetta kemur fram í skrifum Jóns Baldvins (Mbl. 10. apríl, bls 18-19) þar sem hann fléttar eigin þekkingu og reynslu inn í umfjöllun um hina mögnuðu bók Eiríks Bergmanns, Opið land.
Auðvitað eru til aðrar hliðar á stjórnmálasögu Íslands, en þessi saga hefur of lengi verið hluti af okkar sameiginlegu gleymsku. Um 10% af ísjakanum sjást, en viljum við ekkert vita af hinum 90 prósentunum? Sjálfstæðismenn eru í skrifum JBH kallaðir innilokunarsinnar með íhaldssama hugmyndafræði og eftir lesturinn spyr maður sig: Hvernig í ósköpunum getur þetta afturhaldsafl enn í dag verið stærsti stjórnmála- flokkurinn á Íslandi? Þessu hef ég svarað í fyrri skrifum: Af því að hollusta við flokkinn er tilfinningmál, hún er af sama meiði og trúin á æðri máttarvöld, þar sem skynsemin er sjaldnast hátt skrifuð!
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Bækur, Stjórnmál og samfélag, Trúmál og siðferði, Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:32 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.