10.3.2007 | 11:05
Handbolti í körfuboltasamfélagi
Á spjalli heimavefs Skagfirðinga, skagafjordur.com, er spurt hvort ekki eigi að fara að æfa handbolta á Sauðárkróki. Sum bæjarfélög hafa hefð fyrir handbolta, en á Króknum hefur verið leikinn körfubolti í meira en 40 ár, síðan 1964 þegar Helgi Rafn Traustason fyrrum kaupfélagsstjóri byrjaði að þjálfa hóp ungra drengja. Um þetta skrifaði ég samantekt í körfuboltablað fyrir nokkrum árum, sem ég er nú að reyna að grafa upp til að birta hér þessu til stuðnings. Undantekningalítið hefur Tindastóll átt síðustu tuttugu ár lið í úrvalsdeild karla meðal þeirra bestu á landinu og þetta hefur styrkt hefðina enn frekar.
Sem dæmi um þessa sterku hefð er til saga um landsliðsþjálfara í handbolta sem kom ásamt reyklausum vini sínum til Sauðárkróks fyrir nokkrum árum, í þeim tilgangi að skapa stemningu fyrir íþrótt sinni. Allir krakkarnir fengu handbolta í hönd og stilltu sér upp í röð til að skjóta á mark. Þetta gekk ágætlega þar til þjálfarinn brá sér aðeins frá, en þá voru allir umsvifalaust farnir að drita sínum handboltum löngum þriggjastigaskotum á körfurnar á hliðarveggjunum! Svo eru líka takmörk fyrir því hvað eitt lítið landsbyggðaríþróttafélag hefur bolmagn í að halda úti þjálfun í mörgum greinum, en þær eru þegar nokkuð margar hjá Tindastóli á Sauðárkróki.
Athugasemdir
Ég held að sveitarfélagið eigi að styðja við bakið á þeim greinum sem eru í gangi nú þegar og hafa hefð. Það er ekki eins og árangurinn sé stórkostlegur þó hann sé ágætur. Fótboltinn t.d. í neðstu deild.
Handbolti tæki orku og fólk frá hinum greinunum.
En kannski er þetta bara röfl í körfuboltamanni.
Rúnar Birgir Gíslason, 10.3.2007 kl. 12:45
Það hefur bara sýnt sig að handboltinn er ekki landsbyggðarvæn íþrótt og hefur þess vegna mjög litla útbreiðslu þar. Það þarf fleiri iðkendur og stærri aðstöðu - völl o.þ.h. og þess vegna hefur karfan vinninginn úti á landi. Hins vegar er ekkert skrýtið að krakkar hugsi málið, af hverju þau geti ekki æft handbolta eins og aðrir. En hefðin er sterk ástæða eins og Jón Þór bendir á og ekki svo auðvelt að byrja á einhverju nýju.
Karl Jónsson, 12.3.2007 kl. 08:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.