5.3.2007 | 10:46
Hlutverk bílstjórans batnar ekki með aldrinum
Við hjón stoppuðum á bensínstöð í Borgartúni í gærdag til að fá okkur beikonpylsu og pappírsbolla af Kaffitári. Meðan við stóðum við afgreiðsluborðið kom inn gamall maður og honum var mikið niðri fyrir. Fyrst var hann svo óðamála að við skildum ekkert, nema eitthvað: " eldri borgara ". Svo róaðist hann aðeins og sagðist þá ekki ánægður með hvað menn skiptu ört um nafn á hótelum borgarinnar. Hann sagðist vera akandi með sinni eiginkonu, en þau hefðu villst af leið. Hann sagði að þau væru á leið á eldriborgarafund og hefðu verið að leita að Hótel Nordica, " þessu sem áður hét Park-eitthvað, áður en þeir skýrðu það svo Holiday Inn. Óþolandi hvað alltaf er verið að breyta um nöfn á þessu!"
Eftir smá vangaveltur fundum við út í sameiningu hvert ferðinni væri heitið og vísaði ég honum til vegar þannig að kann kæmist á leiðarenda sem stysta leið. Hann lét mig svo tvítaka leiðarlýsinguna hægar og einbeitti sér mikið þegar hann endurtók það sem ég sagði. Með það þakkaði hann kærlega fyrir sig og fór út, en kom svo aftur inn um hálfri mínútu síðar, kvíðinn á svip, horfði biðjandi á mig og sagði: "Viltu segja mér þetta einu sinni enn svo ég villist nú ekki meira, konan mín er búin að skamma mig svo rosalega!"
Athugasemdir
Þú ert alltaf jafn skarpur og sennilega ert að batna með aldrinum. Bara að Svanhildur hafi ekki skammað þig. En þetta er nú kannski rannsóknar efni fyrir ferðamálafræðinginn þe hótelnafnabreytingarnar.
Valgeir Ægir Ingólfsson, 5.3.2007 kl. 17:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.