Tölvutaugarnar þandar

Ég manaði mig loks upp í dag að láta skipta út móðurborði í tölvugarminum. Þegar hún hafði verið fjarverandi í klukkutíma saknaði ég hennar og hringdi og spurði hvernig gengi. Það gekk illa, gamli tölvukassinn passaði ekki fyrir nýja móðurborðið. Auðvitað var ekkert annað í stöðunni en að skipta honum út líka og þá er nú fátt eftir af tölvunni frá 1997 nema gamla diskettudrifið, sem auðvitað fékk að fljóta með yfir í nýja kassann svona upp á lúkkið, svo er aldrei að vita nema einhver verðmæt gögn leynist enn á diskettum.

Með nýju móðurborði fylgdi öflugri örgjörvi og stærra og hraðvirkara minni og núna líður mér eins og ég hafi stigið af reiðhjóli og upp í formúlubíl, auðvitað McLaren. En það er ekki bara sólskinsbros sem fylgir svona breytingum. Nú eru búnir að fara um 4 klukkutímar af svita og tárum í að leita út um alla vél að tengiliðunum í address-book í póstforritinu, svo að finna alla gömlu inn- og útpóstana (þeir reyndust rúmlega 3000 alls), að maður tali nú ekki um nokkur hundruð ómetanlega verðmætar slóðir í bookmarks. Nú þegar þetta er komið í lag er spretturinn hafinn við að setja aftur inn vírusvörnina, sem vonandi nær að skella í lás áður en bakteríurnar fatta að allt er galopið alveg niður í kviku...............shit!!!  ...það er eitthvað að byrja að blikka hérna.....................


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband