29.1.2007 | 19:37
Breskir ferðamenn tengjast hvölunum mest
Rakst á könnun frá 2002 um hvalveiðar, hvalaskoðun og ferðamennsku, sem RHA vann fyrir Ferðamálasetur, en hún var gerð meðal ferðamanna, Íslendinga og útlendinga, um borð í bátum hjá þremur hvalaskoðunarfyrirtækjum. Þar var að finna töflu (mynd 6, bls.13) um ástæður fyrir komu ferðamanna til landsins; hvort hvalaskoðun hefði þar haft áhrif. Greint var eftir þjóðerni og sjaldnast hafði hvalaskoðun haft teljandi áhrif (í minna en 20% tilvika). Nema hjá Bretum, þeir skáru sig nokkuð mikið úr hópnum. Um 300 engilsaxneskir svöruðu könnuninni og rúmlega helmingur þeirra (156) játti því að hvalaskoðun hefði haft áhrif á ákvörðun um að koma hingað til lands. Þessi niðurstaða hefur ekkert alhæfingargildi, en gefur vísbendingu um sérstöðu Breta í þessu máli.
Nú verður mér hugsað til þess að það eru einmitt Bretar sem hafa mótmælt hvað mest nýhöfnum hvalveiðum okkar í atvinnuskyni og því vil ég brýna fyrir tölfræði- spekúlöntum í ferðaþjónustu að halda vöku sinni og fylgjast vel með því hvort breytingar verða á komum Breta hingað næstu tvö sumur (þegar hvalaskoðun er í blóma), en gera verður ráð fyrir að áhrif ættu að hafa komið fram á þeim tíma, ef einhver eru. Bretar skipta okkur verulegu máli í ferðaþjónustu og því verður fróðlegt að sjá hvort þeir, sem virðast af framangreindu tengjast hvalamálum mest, dragi úr ferðalögum til Íslands ef við höldum veiðunum áfram.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.