18.1.2007 | 16:34
Ein magnaðasta matarupplifun lífsins
Fórum hjónin um daginn í Sjávarkjallarann og upplifðum þar eina mestu ævintýraferð sem bragðlaukar okkar hafa lengi komist í. Okkur brá svolítið fyrst, þegar við vorum búin að renna yfir matseðilinn, og uppgötvuðum að við þurftum eiginlega túlk á sumt sem þar stóð: Fresh vibes, jam-jam, mizuna, wasabi, su misu, nori, yuzu, kiwano! What? Gáfumst bara upp og þáðum með bros á vör boð um að leyfa kokknum að koma okkur á óvart. Það gerði hann svo lengi verður eftir munað með fjölda smárétta; þrír forréttir og tveir aðalréttir (eiginlega 5, þar sem annar þeirra var fiskferna).
Þarna voru linkrabbar og lynghænur og fjöldinn allur af svo skemmtilegum samsetningum að nautn verður næstum of vægt orð til að lýsa upplifun okkar. Reyndum þó að stynja eins hljóðlega og við gátum, annarra gesta vegna. Enduðum veisluna svo á nokkrum mjög góðum eftirréttum, en kokkarnir hafa greinilega tekið sig á í þeim eftir að Jónas Kristjáns gagnrýndi veitingahúsið fyrir eftirréttina fyrir nokkrum misserum, því þeir voru puntkurinn yfir i-ið, rúsínan í pylsuendanum þið skiljið, það sem kórónaði frábært kræsingakvöld. Ekki var verra að renna desertunum niður með smá dreitli af sætvíni, sem gjarna hefði þó mátt kosta aðeins minna (2.000 kr þriðjungur úr glasi). En það var þess virði.
Það ýtti svo enn undir þessa sælustemningu okkar að staðurinn er skemmtilegur með gott andrúmsloft, þjónustu eins og best verður á kosið og svo eru diskar, föt og ílát sem réttirnir eru bornir fram í alveg stórkostleg snilld samsetning héðan og þaðan, sem gerir sig vel og styrkir heildarmyndina og magnaðar matarminningar. Mæli með Exotic-menu í Sjávarkjallaranum fyrir ævintýrasækna sælkera og nautnaseggi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.