Færsluflokkur: Bækur

Endurheimtum vitundina frá huganum

Hugleiðsla snýst m.a. um að gera hlé á síhugsun; við þurfum að geta látið af allri hugsun, sem er hluti af hinu skapaða. Stöðug hugsun gerir okkur að föngum í heimi fyrirbæranna og kemur í veg fyrir að við verðum okkur meðvituð um hið óskapaða, meðvituð um formlaust og tímalaust eðli okkar sjálfra og alls sem er. Hugmyndir okkar um hver við erum taka of mikið mið af ímyndunum og misskilningi, sem hugurinn framleiðir eins og á færibandi. Afleiðingin getur verið stöðugur undirliggjandi ótti, ófullnægja og viðkvæmni. Við förum á mis við það sem öllu skiptir, þ.e. vitundina um okkar sanna sjálf, hinn ósýnilega og óhagganlega veruleik.

Til þess að ná því verðum við að endurheimta vitundina, ná henni frá huganum. Því lengra sem er milli skynjunar og hugsunar og því lengur sem við dveljum í tímalausu núinu, því meðvitaðri erum við og lífsupplifunin dýpri. Ein lítil æfing sem hjálpar manni að setjast augnablik að í núinu, ná betri tengslum við vitundina, er að loka augunum og segja við sjálfan sig: Hver skyldi nú næsta hugsun mín verða? Vertu svo árveknin sjálf og bíddu eftir næstu hugsun. Vertu eins og köttur sem bíður eftir hreyfingu við músarholu. Hvaða hugsun er líklegust til að skjótast útúr holunni? Prófaðu þetta núna. Hvað upplifðir þú? (undir áhrifum bókarinnar Mátturinn í Núinu, e. Eckhart Tolle)


Frelsið er dýrmætt

Í gær var alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Skilningur á mikilvægi hans í mínum huga tengist því sem ég er að lesa þessa dagana, nefnilega Dýrmætast er frelsið, eftir Hege Storhaug. Þar er fjallað um innflytjendavanda á vesturlöndum í víðu samhengi og sýn mín á Íslam og ólíkan menningarmun og hugmyndafræði hefur dýpkað. Staða konunnar í þeirri trúarveröld er mjög bágborin og á einum stað lýsir höfundur bókarinnar þessu þannig, að kona hefur í raun mun minni rétt en þræll eða trúleysingi, sem þó hafa afar lágan status hjá múslimum. Bæði þrællinn og trúleysinginn eiga nefnlega möguleika á að fá uppreist æru; þrællinn að verða frjáls maður meðal manna, og trúleysinginn að taka trú og öðlast virðingu á nýjan leik. Konan verður hinsvegar „bara" kona, sem oft þarf að lúta boðum og bönnum Kórans eða Sharía, og skelfilegum yfirgangi ættar-, feðra- og karlaveldis! Ef þú vilt öðlast sýn inní veröld sem okkur flestum hulin, en mikilvægt er að hafa skilning á, þá skaltu lesa bók Storhaug.


Sjálfstæðisflokkur - stórhættulegt afturhaldsafl?

Það er ekki fögur lýsing dregin upp af Sjálfstæðisflokknum þegar afstaða (les: andstaða) hans í helstu framfaramálum þjóðarinnar er rifjuð upp í Morgunblaðinu í dag, en þar er flokkurinn kallaður regnhlífarsamtök sérhagsmunahópa. Ríkisforræði og forsjárhyggja koma oftar fyrir í tengslum við þennan flokk en flesta aðra. Evrópuaðild er ekki á dagskrá, þeir tala um að við megum ekki afsala okkur fullveldinu. Staðreyndin er að 80% af löggjöf ESB er innleidd hér án þess að við fáum nokkuð um mótun hennar að segja. Værum við ekki meira fullvalda ef við hefðum þarna einhver áhrif? Þetta kemur fram í skrifum Jóns Baldvins (Mbl. 10. apríl, bls 18-19) þar sem hann fléttar eigin þekkingu og reynslu inn í umfjöllun um hina mögnuðu bók Eiríks Bergmanns, Opið land.

Auðvitað eru til aðrar hliðar á stjórnmálasögu Íslands, en þessi saga hefur of lengi verið hluti af okkar sameiginlegu gleymsku. Um 10% af ísjakanum sjást, en viljum við ekkert vita af hinum 90 prósentunum? Sjálfstæðismenn eru í skrifum JBH kallaðir innilokunarsinnar með íhaldssama hugmyndafræði og eftir lesturinn spyr maður sig: Hvernig í ósköpunum getur þetta afturhaldsafl enn í dag verið stærsti stjórnmála- flokkurinn á Íslandi? Þessu hef ég svarað í fyrri skrifum: Af því að hollusta við flokkinn er tilfinningmál, hún er af sama meiði og trúin á æðri máttarvöld, þar sem skynsemin er sjaldnast hátt skrifuð!


Er þetta vönduð fréttamennska?

Framtíð Evrópusambandsins er ekki björt, aðallega vegna vaxandi óhagstæðrar aldurssamsetningar. Sífellt fjölgar eftirlaunaþegum sem fara af vinnumarkaði, því stórir árgangar eftirstríðsáranna eru að ljúka starfsævi sinni á næstu árum. Þetta sagði Elín Hirst í sjónvarpsfréttum í kvöld og vitnaði í "sérfræðinga" máli sínu til stuðnings. Hún sagði líklegt að grípa yrði til sérstakra ráðstafana á evrópska vinnumarkaðnum vegna þessa vanda. Þessi sannindi eru nánast orðrétt þau sömu og Robert Kreitner segir frá í nokkurra mánaða gamalli bók sinni, nema hvað hann er ekki að tala um Evrópu, heldur Bandaríkin! Líklegast er þá framtíð þeirra ekki björt heldur, eða hvað? Vandamálið er semsagt ekki einangrað við Evrópulönd, en þessi framsetning í sjöfréttum Sjónvarpsins er ekki til að auka tiltrú manna á vandaða fréttamennsku þar á bæ, sérstaklega ekki þegar þetta fólk tekur að sér að fjalla um Evrópusambandið.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband