Færsluflokkur: Bloggar

Keðjureykingar í kreppunni

Keðjureykingar í kreppunni

Spurningar vakna

Árni og Darling töluðu saman í síma. Einhver hefur fengið upptöku af símtalinu í hendur til að þýða það úr dýralæknaensku yfir á íslensku, og koma því svo á prent. Síðan þurfti að koma þeim pappír til fjölmiðils, nánar tiltekið Ríkisútvarpsins. Hverjir hafa af þessu hagsmuni? Íslendingar (til að sýna umheiminum fram á að Árni sagði ekkert sem gaf Bretum tilefni til að bregðast við eins og þeir gerðu)? Dýralæknirinn sjálfur (kannski betra fyrir hann að alþjóð fái þetta á prenti, í stað þess að heyra símtalið sjálft)? Ég efast um heilindi Geirs, þegar hann segist undrandi á því að þetta hafi lekið í fjölmiðla. Ég held að hann eða hans menn hafi séð til þess að þetta var gert opinbert, með þessum hætti, eins og þeir segja í stjórnmálunum.

mbl.is Furðulegt að samtalið skyldi leka í fjölmiðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr takti við tíðarandann

Sumar auglýsingar virka enn afkáralegri í dag en fyrir nokkrum misserum. Meðan þúsundir fjölskyldna horfa fram fjárhagslegar hörmungar birta menn enn heilsíðuauglýsingar með rándýrum jólahlaðborðum og ýmsum öðrum óþarfa. Verslunin Duxiana í Ármúla toppar þó fáránleikaskalann í mínum huga þessa dagana. Þeir auglýsa á heilli síðu í blöðunum hjónarúm með þrjúhundruðþúsund króna afslætti; það fer úr þrettánhundruðþúsund niður í eina milljón!

Það er árið 1975...

... en ekki árið 2008, eins og sjá má á þessu:

  • Við eigum í stríði við Breta
  • Það eru gjaldeyrishöft
  • Það ríkir óðaverðbólga
  • Atvinnuleysi er vaxandi
  • Vinsælustu lögin eru með ABBA og Villa Vill
  • Forsætisráðherran heitir Geir og er sjálfstæðismaður
  • Bankarnir eru í ríkiseigu
  • Fjármálaráðherra er Mathiesen og er sjálfstæðismaður
  • Seðlabankastjórinn heitir Davíð
  • AC/DC er að skríða upp á vinsældalistana

mbl.is Yfir 50% aukning á atvinnuleysisskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aftur næsta laugardag

Á Austurvelli í dagÞetta var langþráð samkoma fyrir marga þá sem eru í sárum eða eru reiðir útí stjórnvöld, eftirlitsapparatið og Seðalbankann. Ljóst er að þetta lið hefur brugðist okkur og við höfum rétt á því að vera reið, sýna hvort öðru samstöðu og láta í ljós skoðanir okkar. Geir getur ekki sagt okkur að sýna æðruleysi og halda stillingu ef við kjósum að hegða okkur eða tjá okkur öðruvísi. Þó mörgu hafi verið frá okkur rænt síðustu vikur verður þetta frelsi ekki frá okkur tekið. Næsta laugardag kl. 15 verður haldin önnur og fjölmennari samkoma á Austurvelli, þar sem við munum vinna áfram að því að móta okkar nýju tíma.
mbl.is Mótmæla Davíð Oddssyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kreppan kom mér aftur á lappirnar

"Fjármálakreppan hefur komið mér aftur á lappirnar", heyrðist maður einn segja fyrr í vikunni, og bætti svo við: "Það er búið að taka af mér bílinn!"

Bjartsýnn bankastarfsmaður

Ný skilgreining á bjartsýni á þessum síðustu og verstu tímum, er þegar bankastarfsmaður tekur sig til á sunnudegi og straujar fimm skyrtur!

Vantar þig gjaldeyri?

Þeir klikka ekki og eru alveg ómissandi á þessum viðsjálverðu tímum Baggalútsmenn. Á síðunni þeirra, baggalutur.is má nú meðal annars lesa þessar smá-auglýsingar:

Ertu í sorgarferli?

Ekki byrgja reiðina inni. Erum að ráða núna.

Handrukkun Bússa og Valda.

-----------------------------------------------------------------------------------------------------

Vantar þig gjaldeyri?

Eigum slatta af erlendri mynt sem fáanleg er gegn vægu gjaldi. Skilyrði er að gjaldeyriskaupendur kafi sjálfir eftir myntinni.

-Þingvallanefnd-

-----------------------------------------------------------------------------------------------------

Viltu slaka á eftir erfiðan dag í bankanum?

Líttu við og slakaðu á í góðra vina hópi. Alltaf heitt á könnunni. Athugið að almenningur er ekki velkominn.

Stjórnarráðið – sælureitur í alfaraleið


Elton John Lennon á Gullbylgjunni

Á útvarpsstöðinni Gullbylgjunni var í gær sagt frá því að Yoko Ono væri komin til landsins til að kveikja elton-john_694782.jpgá friðarsúlunni og minnast með því dauða eiginmanns síns, Eltons Johns. Síðan var spilað lag með hinum samkynhneigða tónlistarmanni, sem var síðast þegar ég vissi, alveg sprelllifandi. Kannski voru það kringlóttu Lennon-gleraugun sem Elton John skartar gjarnan sem urðu til að svo heiftarlega sló útí fyrir kynninum. Vona bara að fáir Bretar hafi heyrt þetta, nóg höfum við nú böggað þá samt síðustu daga.

Íslenska efnahagsundrið

"Hvað olli íslenska efnahagsundrinu? Festa í peningamálum og ríkisfjármálum, frelsi til viðskipta, myndun einkaeignarréttar á auðlindum, sala ríkisfyrirtækja og skattalækkanir. En ef til vill eru tvær aðrar spurningar nú forvitnilegri. Hvaðan komu íslensku víkingunum fé til að kaupa fyrirtæki sín hér og erlendis? Augljós skýring er auðvitað hinir öflugu lífeyrissjóðir. En önnur skýring ekki síðri er, að fjármagn, sem áður var óvirkt, af því að það var eigendalaust, óskrásett, óveðhæft og óframseljanlegt, varð skyndilega virkt og kvikt og óx í höndum nýrra eigenda." (Hannes Hólmsteinn, 21. september 2008; heimild: http://hannesgi.blog.is/blog/hannesgi/entry/317818/)

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband