Ábyrgðarlaus pólitík í áfengismálum

Væntanlegt er frumvarp um að fara með vínið í matvörubúðirnar. Allir eru sammála um að auðveldara sé að nálgast vín í matvörubúðum en í Vínbúðunum. Það heitir að aðgengi aukist, sem leiðir til aukinnar neyslu. Sigurður Kári þingstrákur sagði í sjónvarpinu í kvöld að ef það yrði raunin, þá yrði að auka forvarnir. Þær kosta peninga, en í nýja frumvarpinu er talað um að lækka áfengisgjaldið sem rennur til ríkisins. Við þessar breytingar hefði ríkið minni tekjur af vínsölu en nú. Ef auka á fjármagn til forvarna á sama tíma og tekjur minnka af vínsölu, þarf þá ekki að skera niður eða að auka skatta?

Eina ástæðan fyrir því að lækka þurfi áfengisgjaldið ef vínið fer í búðirnar, er sú að engin verslun getur sætt sig við þá lágu álagningu sem Vínbúðin leggur á vörurnar í dag, en hún er aðeins á bilinu 6 - 11 % (fer eftir styrkleika).  Frumvarpsflytjendur vilja lækka áfengisgjaldið svo vinir þeirra í verslunarstétt verði ríkari.  Það sem þeir leggja til er að ríkið (les: við) verði fyrir bæði tekjuskerðingu og kostnaðarauka! En því miður er umræðan grunn og klisjukennd og lítill vilji til að horfa til reynslu annarra þjóða. Frumvarpið lyktar af óábyrgri frjálshyggjupólitík sem vinnur gegn almannahagsmunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þór Bjarnason

Ég var að blaðra í gegnum samantekt sem ég skrifaði í ferðamálanáminu í Hólaskóla, eftir vettvangsheimsókn í ÁTVR, og neyðist í kjölfar fyrirliggjandi upplýsinga :) til að leiðrétta hér sjálfan mig. Álagningarprósenta ÁTVR, eða Vínbúðanna, er 6,85% á sterk vín, og 13% á léttvín og bjór. Á það skal bent að drjúgur hluti hagnaðar ÁTVR fer í að greiða niður tap af Vínbúðum víða um land, sem flestar eru reknar með tapi.

Jón Þór Bjarnason, 29.10.2007 kl. 23:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband