Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Ég vil að mér sé hlýtt...

Fyrir margt löngu var á Krók kennari sem sagði þessa setningu nötrandi yfir óþekkan bekkinn sinn: Ég vil að mér sé hlítt! Einn nemandinn kenndi í brjósti um skjálfandi kennarann sinn og svaraði samúðarfullri röddu: Viltu fá lánaða peysuna mína?

Í hvað er hægt að nota kvistagöt?

Það er sígilt að gamlir starfsmenn reyni að gera at í nýjasta starfsmanninum á vinnustaðnum; þeim sem enn er blautastur bakvið eyrun. Oft verður úr þessu hið skemmtilegasta grín sem lengi er hlegið að, en það er líka stundum sem mönnum tekst ekki að gabba eins og til stóð. Um daginn hringdu félagar í Byko úr farsíma í einn sem var nýbyrjaður í timburdeildinni og spurðu hvort hann ætti 200 kvistagöt á lager. Sá nýi hváði til að byrja með, en var svo snöggur að átta sig á gríninu og svaraði því til að þau hefðu öll selst upp fyrr um daginn. Nú, sagði grínarinn hissa, hvernig gat það gerst? Jú, sagði nýi starfsmaðurinn, það kom hérna kúnni í morgun sem er að framleiða rugguhesta, og hann vantaði þau í rassgöt. Þetta var að sjálfsögðu bæði fyrsta og eina grínið sem reynt var á þennan snarþenkjandi pilt!

Stemning í Austurríki

Austurríki 18. mars 2008Nú eru tveir dagar liðnir af alls átta á snjóbrettum hér á stóra skíðasvæðinu suður af Salzburg, og hafa þeir verið vonum framar frábærir. Það reynir að vísu verulega á vöðva að renna sér svona kílómeter eftir kílómeter, endalausir valkostir, rauðar brekkur, svartar brekkur, niður, niður... í stað 1 km langrar brekkunnar í Tindastóli, sem við erum vönust. Hæst höfum við komist í tæpra tveggja kílómetra hæð, en þar eru brekkurnar og færið oftast betra en neðar. Góð þjónusta og matur einkennir þau veitingahús og fjallakrár sem við höfum prófað fram til þessa, en þau eru víða hér í fjöllunum í kring. Það jafnast þó fátt á við það að lenda með heimamönnum á krá milli fjögur og sex á daginn, eftir að skíðadegi líkur, þar sem þeir standa sveittir í hnapp og fíla í tætlur þessi ótrúlega hallærislegu austurrísku teknó-diskó-baráttu-júróvisjón lög sín. Í dag missti heil krá sig í dansi og söng og það var ótrúleg upplifun að fá að vera með í því öllu.


Eitt hundrað þúsund flettingar

Fyrir rúmu ári síðan byrjaði ég að krota hér niður þanka mína um allt og ekkert. Suma daga og vikur er maður virkur, aðra ekki. Í gær var ég óvenju duglegur, og þá heimsóttu síðuna um 270 manns. Í fyrravor kom aurflóð á Sauðárkróki, sem ég náði að ljósmynda vel og koma á örskömmum tíma hingað inn á síðuna. Þann dag var mikil traffík, rúmlega eitt þúsund gestir og yfir tuttugu og fimm þúsund flettingar. Þá vikuna komst ég líklegast í fyrsta og eina skiptið inn á topplistann. Í heildina eru nú flettingar að nálgast eitt hundrað þúsund, og þó þetta blogg sé langt frá því að vera meðal þeirra mest lesnu, þá væri ég að ljúga ef ég viðurkenndi ekki að þessi áfangi fæli í sér örlítið stolt.

Shit happens í byggingarbransanum

e269983_7AÞessi mynd, sem er úr húsi sem er til sölu á Selfossi, er dæmi um þegar menn ætla sér um of í flottheitum í byggingar- framkvæmdum, og hafa svo ekki efni á að klára. Fjármagnið kláraðist og því er glerveggurinn á klóinu í svefnherberginu enn ekki sandblásinn eins og til stóð!

Blindur blúsgítarleikari deyr

Einn magnaðasti blúsgítarleikari seinni tíma og einn af mínum uppáhalds, Kanadamaðurinn Jeff Healey, lést úr sjaldgæfum sjúkdómi (Retinoblastoma) fyrir örfáum dögum síðan. Sjúkdómurinn herjaði á augun á honum frá eins árs aldri; krabbamein sem dró hann til dauða aðeins 41. árs gamlan. Hann þróaði og gerði frægan mjög sérstakan spilastíl, þar sem hann sat á stól með gítarinn liggjandi flatan á lærunum. Hann skilur eftir sig jafnt kröftug blúsrokklög sem og fallegar blúsballöður, sumar svo  yfirþyrmandi tilfinningaríkar að þær hafa framkallað tár hjá fleirum en mér. Healey er farinn, en tónlistin lifir og á eftir að auðga líf mitt og fjölmargra annarra um ókomin ár.

10 sinnum betra?

Er U20 ekki 10 sinnum betra en U2?
mbl.is Þrennar systur í U20 ára liðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt viðbrögð yfirvalda

Af erlendum fréttum að dæma eru þetta alveg tvö óskyld mál. Það eru bara sárir hundaeigendur sem hafa náð athygli fjölmiðla með því að stilla þessu upp hvort gegn öðru; að reyna að skapa múgæsingu siðapostula gegn frjálsu eða sýnilegu kynlífi. Raunveruleikinn er sá að margir nota þennan garð á nótunni til kynlífsathafna og þetta ætla yfirvöld í Amsterdam að samþykkja, gegn því að það verði ekki stundað nálægt barnaleikvellinum, og að elskendur taki með sér ruslið sitt (les: smokkana). Það er líka raunveruleiki að í þessum garði, sem fær tíu milljón gesti á ári, þá er ekki kvartað meira yfir neinu en lausum hundum, sem skilja eftir sig saur og hland um allan garð, auk þess að valda truflun og ótta hjá verulegum fjölda gesta. Bit, glefs og gelt eru þarna mjög algeng þegar um lausa hunda er að ræða, og því eina lausnin, eins og á flestum öðrum almenningsstöðum, að hafa hundana í ól. Eftir að hafa kynnt mér málið í erlendum miðlum er ég innilega sammála aðgerðum borgaryfirvalda.

mbl.is Kynlíf leyft, ekki hundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Okurverð á eiturlyfjaprófum

Allveg er ég gáttaður á að forvarnarstarf á Íslandi skuli virkilega vera í þeim sporum að foreldrar sem eru að reyna að halda unglingunum sínum frá eiturlyfjum, og nota m.a. til þess prufur til að dífa í piss, skuli þurfa að punga út stórum upphæðum til þess að þetta sé framkvæmanlegt. Og í ofanálag er það þannig að svona dóptest sem keypt eru dýrum dómum í apótekum landsins, eru ólík eftir því hvaða eiturlyf á að kanna. Þannig að til að prófa unglinginn sinn fyrir helstu lyfjum á markaðnum þarf jafnvel að kaupa tvö til þrjú ólík eiturlyfjapróf, sem hvert kostar kannski í kringum tvö þúsund krónur. Og unglinga sem eru í mestri hættu þarf kannski að prófa oft í mánuði. Svona prufur sem hafa fælingarmátt og fyrirbyggjandi áhrif, á ríkið að niðurgreiða og sýna að þar sé mönnum alvara með forvarnarstarfi gegn eiturlyfjanotkun unglinga, en því miður hefur skort mikið upp á að það sé reyndin í verki.

Vannýtt blóðbað og voðaatburðir

Það rifjast enn og aftur upp fyrir mér í því verkefni sem ég vinn nú að, hve gríðarleg verðmæti og tækifæri Skagfirðingar eiga í Sturlungasögunni, en að sama skapi vannýtt. Hér er lítið um raunverulega “vöru” að bjóða ferðamönnum, þrátt fyrir að hér hafi farið fram bæði fjölmennustu og blóðugustu bardagar Íslandssögunnar, annarsvegar 3000 manna bardagi við Örlygsstaði, og svo lágu um hundrað manns í valnum í Haugsnesbardaga. Hér átti sér líka stað einn níðingslegasti atburður þessarar óaldar, þegar á þriðja tug manna voru brennd inni í Flugumýrarbrennu. Gissur jarl slapp eins og menn vita með því að sökkva sér í sýruker. Að lokum má svo nefna að eina sjóorustan sem háð hefur verið við Ísland (fyrir utan Þorskastríðshnoðið) hófst með siglingu skipa Kolbeins unga og hans hermanna frá Selvík á Skaga, en hann barðist við Þórð Kakala og menn hans úti fyrir Húnaflóa. Víða erlendis nýta menn mun ómerkilegri atburði til þess að búa til vinsæla áfangastaði fyrir ferðamennn, en þetta hefur okkur enn ekki tekist hér í Skagafirði.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband