Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Spurningar vakna

Árni og Darling töluðu saman í síma. Einhver hefur fengið upptöku af símtalinu í hendur til að þýða það úr dýralæknaensku yfir á íslensku, og koma því svo á prent. Síðan þurfti að koma þeim pappír til fjölmiðils, nánar tiltekið Ríkisútvarpsins. Hverjir hafa af þessu hagsmuni? Íslendingar (til að sýna umheiminum fram á að Árni sagði ekkert sem gaf Bretum tilefni til að bregðast við eins og þeir gerðu)? Dýralæknirinn sjálfur (kannski betra fyrir hann að alþjóð fái þetta á prenti, í stað þess að heyra símtalið sjálft)? Ég efast um heilindi Geirs, þegar hann segist undrandi á því að þetta hafi lekið í fjölmiðla. Ég held að hann eða hans menn hafi séð til þess að þetta var gert opinbert, með þessum hætti, eins og þeir segja í stjórnmálunum.

mbl.is Furðulegt að samtalið skyldi leka í fjölmiðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Drangeyjarmyndir

Það eru víst fýlar á Íslandi ;)Myndir frá lundaveiðiferðinni í Drangey í síðustu viku er nú komnar inn; smella HÉR til að skoða.

Okurverð á eiturlyfjaprófum

Allveg er ég gáttaður á að forvarnarstarf á Íslandi skuli virkilega vera í þeim sporum að foreldrar sem eru að reyna að halda unglingunum sínum frá eiturlyfjum, og nota m.a. til þess prufur til að dífa í piss, skuli þurfa að punga út stórum upphæðum til þess að þetta sé framkvæmanlegt. Og í ofanálag er það þannig að svona dóptest sem keypt eru dýrum dómum í apótekum landsins, eru ólík eftir því hvaða eiturlyf á að kanna. Þannig að til að prófa unglinginn sinn fyrir helstu lyfjum á markaðnum þarf jafnvel að kaupa tvö til þrjú ólík eiturlyfjapróf, sem hvert kostar kannski í kringum tvö þúsund krónur. Og unglinga sem eru í mestri hættu þarf kannski að prófa oft í mánuði. Svona prufur sem hafa fælingarmátt og fyrirbyggjandi áhrif, á ríkið að niðurgreiða og sýna að þar sé mönnum alvara með forvarnarstarfi gegn eiturlyfjanotkun unglinga, en því miður hefur skort mikið upp á að það sé reyndin í verki.

Nýjar myndasyrpur

Loksins er að færast líf aftur í innsetningu mynda hér á síðunni, í dag hafa dottið inn myndir af ættarmóti, brúðkaupi og svo nokkurra ára samsafn mynda úr Drangey, bæði frá ferðum þar sem lundi var háfaður og einnig úr leiðöngrum til að ná í egg. Hægt er að sjá myndirnar með því að smella hér til vinstri, á myndaalbúm.

Bolti og bretti

Elsa í brettastökkiLoksins, loksins... komst maður á snjóbretti og á körfuboltaleik á Krók, hvorutveggja langþráð. Við fórum í skíðalyftuna í Tindastóli, ég og Elsa á bretti, en Gummi á skíðum, og áttum þar nokkur fin rennsli. Fengum okkur svo kakó, soðbrauð með hangiketi og kanilsnúða eftirá, svona rétt til að hita upp fyrir gríðargott lasanjað sem Svanhildur kokkaði fyrir skíðafólkið í kvöldmatinn. Eftir matinn fór svo þríeykið á heimaleik í körfunni, þar sem spennan var í algleymi þegar Tindastóll marði sigur á Stjörnunni, en þar tók sig upp gömul stemning svo að maður er enn aumur í lófum og rámur í röddu. Boltaleikur og brettaferð með börnunum er gefandi og bætir talsvert við mína annars ágætu lífsgleði.

Ævintýri Snússa litla í Kína - 5. hluti

Snússi hvílir lúna leggiÍ dag fluttum við Snússi okkur á milli hótela í Shenzhen; fórum nær aðalsvæðinu í Sekou-hverfinu, þar sem frændi og félagar búa; þar sem veitinga- og skemmtistaðir eru fleiri og menningin líflegri. Við vorum lúnir eftir burð og göngur og hvíldum okkur sveittir í skugga undir tré á gangstéttinni; óbærilegur desemberhitinn hér í suður-Kína ætlar allt að kæfa ef maður hreyfir meira en einn lið og hálfan legg. Fæturnir voru bólgnir af göngu og því ekkert annað að gera en að fara í nudd. Snússi vildi ekki fótanudd og beið því slakur á meðan undir trénu góða. Á meðan lappirnar hvíldu lúnar í tréfötu með heitu vatni og söltum á nuddstaðnum, nuddaði kínverski strákurinn bak, herðar og háls svo gamlir hnútar losnuðu umvörpum, með tilheyrandi stunum. Svo hófst hann handa við fæturna; ilja- og svæðanudd, kálfa- og læranudd, með allrahanda olíum og náttúrefnum. Út kom minn maður endurnærður á bæði líkama og sál, og auðvitað var Snússi glaður að sjá afa sinn, enda hafði hann beðið í tæpan einn og hálfan tíma. Herlegheitin kostuðu alls RMD 48, eða um 430 krónur íslenskar, fyrir um áttatíu mínútna topp trít! Dagurinn endaði svo í ljúfum fíling á sveiflandi latin-tónleikum niðri í bæ, allt þar til nóttin dró okkur dimm inn í sig.

Ævintýri Snússa litla í Kína – 4. hluti

Í dag tókum við Snússi rólegan laugardag í Sekou; röltum um og fylgumst með mannlífinu í sólskininu. Í bænum var komið við í banka til að skipta dollurum, og það tók nú drjúga stund. Fyrst fyllti ég út eitt eyðublað, svo fyllti bankastarfsmaðurinn út tvö eða þrjú í viðbót, svo tók hann afrit af passanum mínum, en þá tók við reikistefna þriggja starfsmanna í allnokkra stund. Áður en yfir lauk hafði ég undirritað fjórum sinnum og tíminn sem það tók að skipta þessum fáeinu dollurum yfir í Yuan Renmimbi var um það bil tuttugu mínútur! Ekki sérstaklega skilvirkt það. Svo fórum við Snússi með fullt af Kínverjum út á jarðberjaakur, þar sem við týndum okkar eigin ber í körfu. Þarna var skemmtileg fjölskyldustemning í rúmlega tuttugu stiga hita; allir vönduðu sig við að stika stígana og týna fallegustu berin. Gömul kona með stráhatt vigtaði svo og rukkaði við hliðið á leiðinni út. Hún var með skiptimyntina í hátísku Gucci veski hangandi utan á sér, en þau fást hér fyrir lítið fé, í landinu þar sem kaffibollinn á hótelinu kostar meira en leigubíll í fimmtán mínútur (eða uþb 200 krónur). Kvöldið er svo frátekið fyrir stórdinner hópsins sem tengist Medialite hér í Kína.

Ævintýri Snússa litla í Kína – 2. hluti

Snússi á degi tvö í KínaveldiDagur tvö hjá okkur Snússa hófst með morgunmat á Grand View hótelinu, þar sem boðið var upp á margt það skrýtnasta sem sést hefur á slíkum hlaðborðum. Til að komast fyrr inn í kúltúrinn og bakteríuflóruna létum við okkur hafa það að smakka á flestu, þótt það lyti ókræsilega út. Það skal þó tekið fram að áður en farið var af herberginu var innbyrtur gúlsopi af íslensku þorskalýsi sem við höfðum með okkur. Eftir morgunverð gengum við svo um 15 kílómetra leið, frá hótelinu og alla leið niður að Szeaworld í Sekou, í yfir tuttugu stiga hita. Gangan tók tæpa fjóra tíma um breiðgötur og öngstræti og fengum við beint í æð alla hina fjölbreyttu flóru kínverskrar götumenningar; verkamenn í hádegislúr á gangstéttinni, betlarar og Benzar, háværir strætóar og hljóðlát reiðhjól með sligandi hlass. Við Snússi erum nú komnir heilu og höldnu heim á hótel, og berjumst við að halda okkur vakandi fram á síðkvöldið til rétta af rammskakkan sólarhringinn.

Snússi kemur til Kína

Snússi nýlentur í KínaEftir þrettán klukkutíma langt flug frá London lentum við Snússi í Hong Kong í dag. Þjónustan hjá BA var góð, nóg að borða og drekka og allt frítt, auk þess sem afþreyingarefnið um borð í 747-vélinni virkaði vel. Svo var farið með katamaran-ferju yfir til Shenzhen (13 millj. manna borg), en lítið sást á leiðinni af eyjum eða annarri náttúrufegurð sökum mengunarmisturs. Sá hluti borgarinnar sem við erum í er talsvert ferðamannasvæði, með vestrænum og alþjóðlegum áhrifum og mikið líf á götunum. Enda fór það svo að flugþreyttir félagar fengu sinn fyrsta fæðuskammt á thailenskum veitingastað þegar kvölda tók. Nú er klukkan að ganga tólf hér í suður-Kína, sem er líklegast um átta klukkustundum á undan íslensku klukkunni; tími til kominn að fara í lúr og gera tilraun til að snúa sólarhringnum í átt til nýrra tíma. (Fyrir þá sem ekki vita er Snússi bangsinn hans Guðmundar Jónssonar (6 ára), og fékk að koma með til Kína sem sérlegur sendibangsi íslenskra kollega sinna – sjá mynd)

Sannar sögur úr sveitinni

Kona ein kom slompuð heim um nótt og fór beint inn í myrkvað hjónaherbergið. Hún reif sig úr fötunum, skreiddist undir sæng og teygði sig yfir til eiginmannsins. Í svefnrofunum teygði hann sig á móti, en þrátt fyrir að vera nokkuð sljó skynjaði hún að hann var bæði stífari og ilmaði öðruvísi en vanalega. Það sem hún ekki vissi var að eiginmaðurinn hafði, eftir að hún fór út um kvöldið, ákveðið að skella sér líka út á lífið. Og þrátt fyrir að vera dauðsyfjaður sjálfur hafði afinn boðist til skjótast yfir og passa fyrir son sinn. Eins og gefur að skilja varð heilmikill vandræðagangur í hjónarúminu þegar hið rétta kom í ljós, og tengdadóttirin og tengdafaðirinn slitu sig óttaslegin úr faðmölögum hvort frá öðru.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband