Færsluflokkur: Menntun og skóli

Flýtir sinnuleysið fyrir fólksfækkun á landsbyggðinni?

Ég spái því að margir sveitafélagsmenn á landsbyggðinni vakni upp við vondan draum áður en septembermánuður er úti, þegar í ljós kemur óeðlilega hröð fækkun íbúa í mánuðinum. Ástæðan eru nýjar reglur Strætó bs um frí nemendakort, en á þessu skólaári er þess nú krafist að nemendur eigi lögheimili á stór-Reykjavíkursvæðinu til að fá umrædd kort. Ef menn væru vakandi og á tánum fyrir velferð síns sveitarfélags ætti þetta að vera einfalt reikningsdæmi: Hve miklu tapar sveitarfélagið í glötuðum útsvarsgreiðslum vegna lögheimilisflutnins þessa fólks og væri kannski ódýrara fyrir þau að niðurgreiða strætókortin fyrir nemendurna? Mér skilst að það kosti aðeins um 30 þúsund fyrir allan skólaveturinn. Hætt er við því að nemandi sem flytur lögheimilið sitt suður flytji það ekki alveg í bráð aftur heim í hérað.

“Hver gerði (sagði) hvað, hvar, hvenær, hvernig, hvers vegna og hvað svo?”

Jónas Kristjánsson leiðbeinir fólki í fjölmiðlun á heimasíðu sinni, www.jonas.is. Hann notar einfaldan stíl og talar skýrt, þannig að maður skilur aðalatriðin. Honum er annt um íslenskt mál og hvernig ber að nota það svo fólk skilji, í stað þess að drukkna í fræðilegri froðu eða málskrúði. Hvort sem þú ert áhugamaður um tungumálið okkar, vinnubrögð á fjölmiðlum eða einstök dæmi (t.d. Árnamálið), þá er hægt að mæla með heimsókn á heimasíðu Jónasar.

Ályktunarhæfni mannsins...

... er afar skeikult fyrirbæri þegar kemur að svona löguðu. Við neitum að horfast í augu við tölfræðilegar staðreyndir, heldur tínum til einstök atvik, sem er ætlað að færa sönnur á hið gagnstæða. Það eru auðvitað afar hæpin vísindi. Hjátrú er og verður áfram hluti af mannlegri tilveru, þótt hún eigi sér enga stoð í raunveruleikanum. Ein af mínum uppáhaldsbókum fjallar um þessi fyrirbæri og mörg önnur mjög svo áhugaverð á svipuðum nótum, en hún er eftir Thomas Gilovich og heitir Ertu viss? - Brigðul dómgreind í dagsins önn (How we know what isn't so - The fallibility of human reason in everday life, útg. 1991).
mbl.is Minna um óhöpp á föstudaginn 13. en aðra föstudaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bíó á Króknum eftir Skagfirðinga í Kvikmyndaskólanum

Sauðárkróksbíó sýnir um helgina tvær stuttmyndir; útskriftarverkefni tveggja Skagfirðinga sem voru að ljúka námi í Kvikmyndaskóla Íslands. Myndin Yfirborð eftir Stefán Friðrik Friðriksson hlaut um síðustu helgi aðalverðlaunin á útskriftarhátíð í Laugarásbíói, en einnig verður sýnd í Sauðárkróksbíói myndin Þjófur, þjófur, eftir Ragnar P. Pétursson. (Í framhjáhlaupi má geta þess að við Ragnar lékum saman á fjölum Þjóðleikhússins árið 1996, í Sumrinu fyrir stríð, eftir Jón Ormar Ormsson).

Vonandi verður svo samskonar stuttmyndaveisla á Króknum að ári, þegar Skagfirðingarnir Davíð Jónsson og Styrkár Snorrason mæta heim með sín útskriftarverkefni, en þeir voru fyrir skemmstu að ljúka sínu fyrra ári í Kvikmyndaskólanum.


Ég vil að mér sé hlýtt...

Fyrir margt löngu var á Krók kennari sem sagði þessa setningu nötrandi yfir óþekkan bekkinn sinn: Ég vil að mér sé hlítt! Einn nemandinn kenndi í brjósti um skjálfandi kennarann sinn og svaraði samúðarfullri röddu: Viltu fá lánaða peysuna mína?

Orðasambönd með margræðar merkingar

Það er oft mjög örvandi að leika sér með tungumálið okkar fallega. Menn geta farið mis stutt eða langt með merkingu orða og orðasambanda, allt eftir notkun og samhengi. Eins og í nýlegum auglýsingum Umferðastofu o.fl. um að deyja ekki úr þreytu. Ég hef stundum fengið börn til að spá í ýmis orð sem nota má í fleiri en einum tilgangi; orð sem fá nýja meiningu ef notuð í öðru samhengi. Það rifjast upp fyrir mér mörg undrandi og jafnvel skelfd barnaandlit í gegnum tíðina, þegar ég hef bent krökkum sem narta í afrakstur nefbors á að það geti verið lífshættulegt; fjöldi manns í fátækum löndum deyi daglega úr hor.

Ekki þorandi að segja hvað sem er

Fyrir margt löngu var ungur drengur í skóla á Krók að læra stafrófið. Hann var fljótur að tileinka sér allt sem hann lærði og kunni snemma veturs alla stafina, nema einn. Hann var alveg ófáanlegur til að segja ell. Svona gekk þetta fram á vor, hann þuldi umbeðinn alla bókstafina í réttri röð, en hoppaði alltaf yfir ell. Þegar á endanum dróst uppúr honum af hverju hann gerði þetta, þá var skýringin sú að þetta væri mjög varasamur stafur, gæti hreinlega verið lífshættulegur. Til vitnis þessu nefndi hann dæmi; amma hans hafði dáið úr elli.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband