Færsluflokkur: Samgöngur

Flýtir sinnuleysið fyrir fólksfækkun á landsbyggðinni?

Ég spái því að margir sveitafélagsmenn á landsbyggðinni vakni upp við vondan draum áður en septembermánuður er úti, þegar í ljós kemur óeðlilega hröð fækkun íbúa í mánuðinum. Ástæðan eru nýjar reglur Strætó bs um frí nemendakort, en á þessu skólaári er þess nú krafist að nemendur eigi lögheimili á stór-Reykjavíkursvæðinu til að fá umrædd kort. Ef menn væru vakandi og á tánum fyrir velferð síns sveitarfélags ætti þetta að vera einfalt reikningsdæmi: Hve miklu tapar sveitarfélagið í glötuðum útsvarsgreiðslum vegna lögheimilisflutnins þessa fólks og væri kannski ódýrara fyrir þau að niðurgreiða strætókortin fyrir nemendurna? Mér skilst að það kosti aðeins um 30 þúsund fyrir allan skólaveturinn. Hætt er við því að nemandi sem flytur lögheimilið sitt suður flytji það ekki alveg í bráð aftur heim í hérað.

Tækninni fleygir fram... og aftur!

Ungur drengur var með eldri frænda á ferð í bíl nýverið. Það var heitt í veðri og þegar sá stutti kom í bílinn voru rúður niðri til að lofta inn. Frændinn ók bílnum stuttu síðar inná stæði við verslun og drap þar á. Stráksi bað hann þá um að svissa aftur á bílinn; hann hefði gleymt að skrúfa upp rúðuna. Það þarf ekki að svissa á hann til þess, sagði frændinn "þú snýrð bara handfanginu þarna á hurðinni og skrúfar þannig upp." Sá ungi horfði vantrúaður á frændann, en sá svo að rúðan færðist uppávið þegar hann sneri varlega handfanginu. Sagði svo yfir sig hrifinn: "Djís, þetta er ótrúlegt... rosa er þetta orðið tæknilegt maður, ha?!"

Eitt sinn hjólfar...

Jarðvegsskemmdir á ásnum handan við ÁlftavötnÁ göngu um Strútsstíg með Útivist í síðustu viku blöstu víða við skemmdir á jarðvegi, sem jeppakallar fyrri tíma ollu með akstri sínum. Sem betur fer hefur vitund um skaðsemi utanvegaaksturs aukist og stórlega dregið úr honum í seinni tíð. Mörg þeirra sára sem við blasa eru nokkurra tuga ára gömul, en þau hverfa aldrei. Á meðfylgjandi mynd má glögglega sjá hvernig eitt saklaust hjólfar eftir bíldekk hefur orðið að heljarinnar skurði í áranna rás. Sorglegt, ekki satt?

Fjaðrárgljúfrin fallegust

Guðmundur Jónsson í FjaðrárgljúfrumRétt vestan við Kirkjubæjarklaustur er einn af mínum uppáhalds náttúrfyrirbærum íslenskum, Fjaðrárgljúfur. Stígur er upp með bakkanum að austanverðu, þar sem flestir ferðamenn ganga um tveggja km leið og horfa niður í gljúfrið. Mun miklu sterkari upplifun fylgir því hinsvegar að ganga niðrí gljúfrinu. Fjaðráin hlykkjast þar um og til að komast inneftir þarf að vaða hana á nokkrum stöðum. Áin er grunn og straumlítil og auðveld yfirferðar á góðum vaðstígvélum, nú eða bara berum fótum. Þarna inni í gljúfrinu er maður í undraveröld stórfenglegra stapa og bergmyndana og upplifir yfirþyrmandi návígi við náttúru sem seint gleymist.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband