Færsluflokkur: Tónlist

Bílskúrsbandið hannar fyrsta plötuumslagið sitt

Sonurinn og félagar hans eru með Hip Razical - Ljósm:JÞB - Photoshop: Davíð Jónssonhljómsveit í bílskúrnum, nágrönnum okkar til mikillar armæðu. Nú er æft af kappi því Músiktilraunir eru framundan síðar í mánuðinum. Sem hluta af nauðsynlegum gögnum þurftu þeir að senda inn mynd af bandinu og málið leystum við í sameiningu. Ég fór með þeim út í garð í kvöld, vopnaður ljósmyndavél á þrífæti og öflugum ljóskösturum frá mági mínum. Stillti þeim upp við stóra tréð, lýsti á hlið og skaut og skaut. Snjókoman setti smá strik í reikninginn, en samt var hægt að finna nothæfar myndir inn á milli. Þeir fóru svo í Photoshop með myndina og komu glaðbeittir hálftíma síðar með breytta mynd, sem mér sýnist að muni bara sóma sér vel á fyrsta plötuumslaginu, þegar að því kemur.

Ofvirkur hljóð- og myndmeistari með njálg...

Sá tvö snilldarskemmtileg myndbönd með Lasse Gjertsen á síðunni hans Jónasar Antons og verð að deila þeim með ykkur. Það er hægt að sjá gaurinn í ham á myspace-síðunni hans; hann er snillingur í hljóð- og myndklippingum. Alveg þess virði að kíkja aðeins á hann, t.d. tvö efstu myndböndin!

Hvað er tónlist?

Ég er búinn að vera að velta tónlist talsvert fyrir mér upp á síðkastið. Ekki einhverri ákveðinni tónlist, heldur fyrirbærinu sjálfu og því hvernig hún vekur ólík hughrif með manni. Upphafið var skólaverkefni þar sem reynt var að svara þeirri spurningu hvort tónlist væri minjagripur. Fullnaðarsvar hefur ekki fengist, en sannarlega er hægt að nota tónlist til að kalla fram minningar, sömuleiðis sem undirspil undir atburð, jafnvel þannig að hún verði að eilífu hluti af honum. Útlendingur sem ekur hringveginn með Sigurrós í spilaranum á Yarisnum á vafalítið eftir að tengja tónlistina við sterka upplifun sína af íslenskri náttúru (eða rolluna sem hann ók á) það sem eftir er.

Úti í bílskúr er ég með lyftingatæki sem ég nota 2-3 í viku, og þar er líka gamli lúni Bang&Olofsen grammafónninn hennar mömmu, ásamt öllu gamla vinylplötusafninu mínu. Lyftingar fara því undantekningarlaust fram undir tónlist frá áttunda og níunda áratugnum og þetta framkallar ýmis hughrif. Stundum fylgir myndræn minning ákveðnu lagi en svo er líka allt eins algengt að engin ákveðin minning komi með laginu, heldur bara tilfinning; alveg óskilgreind ómyndræn hughrif sem ég næ ekki að festa hönd á eða tengja við neitt, en eru samt svo sterk að þau eru næstum áþreifanleg. Niðurstaðan gæti því orðið sú að ef minjagripur færir manni minningar og skapar hughrif, ja þá er tónlist minjagripur... allavega í einhverjum tilfellum. Eða hvað?


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband