Færsluflokkur: Tónlist

Megasartónleikarnir í Höllinni

Frábærir tónleikar eru að baki hjá meistara Megasi og Senuþjófunum, og sá þáttur þeirra sem ég vann við, þ.e. sviðs- og ljósamálin, fengu fína dóma í blöðum dagsins. Guðbrandur Ægir á veg og vanda að því öllu, hannaði bæði sviðsmynd og ljós og sá um ljósastjórn á tónleikunum. Mogginn segir sviðsmynd hafa verið einfalda og flotta; Fréttablaðið segir sviðsmynd hafa verið einfalda (eitt tré og ljósasería) og lýsingu látlausa en áhrifamikla. Tréð kom vel út, en þetta var lauflaust birkitré sem við vorum búnir að festa á með vír um 100 laufgaða stöngla. Reykjavíkurborg á þakkir skyldar fyrir að útvega tréð úr Elliðaárdalnum, JB Byggingarfélag sömuleiðis fyrir þökurnar sem notaðar voru í að tyrfa hólinn undir trénu. Þó þetta hafi verið talsverð vinna og tíminn naumur undir lokin þá var mjög gefandi að taka þátt í þessu verkefni. Takk fyrir mig.

Er Krókur betri en Kelda?

Flestum finnst það já, en ekki þeim Króksurum sem verða heima um mánaðarmótin júní/júlí, þegar vinirnir verða komnir á Hróarskeldu...

Untrue Stories besta lag Hip Razical?

Davíð Jónsson söngvari Hip Razical - Mynd: Gunnlaugur JúlíussonLagið Untrue Stories fékk flest atkvæði í lítilli skoðanakönnun hér á síðunni um hvert þriggja laga Hip Razical væri best. Strákarnir og hljóðmeistarinn Jón Skuggi hafa nú lagt lokahönd á lögin í hljóðveri Skuggans, Mix ehf., og eru þau komin hingað á síðuna endanlega hljóðblönduð. Sjálfum finnst mér It Stays the Same best og öðrum sem ég þekki líkar best við O.D., en svona er tónlistin; mjög persónubundið hvað höfðar til fólks. Fyrir áhugasama skal bent á að bílskúrsbandið í Barmahlíðinni er með síðu á MySpace

Hvaða Hip Razical lag er best?

Síðastliðna nótt komu Hip Razical að sunnan úr Mix ehf., hljóðveri Jóns Skugga, með þrjú lög sem þeir tóku upp um helgina. Þetta eru fyrstu lögin þeirra sem eru hljóðrituð. Þau eru nú komin í spilarann hér til vinstri, en fyrir neðan hann er skoðanakönnun, um hvert laganna þriggja, It Stays the Same, O.D. eða Untrue Stories, þér finnst best.

Úrslitakvöldið Hip Razical óhagstætt

Hip Razical frá Sauðárkróki lentu á úrslitakvöldi Músiktilrauna í nokkrum vanda. Tónlist þeirra hljómaði illa, sérstaklega í upphafi, sem kannski bæði má skrifa á vondan hljómburð Hafnarhússins fyrir rafmagnaða tónlist, auk þess sem hljómsveitin hafði ekki fengið nema brot af þeim hljóðprufutíma sem boðið var upp á á undankvöldinu í Loftkastalanum. Hljómurinn skánaði þegar leið á flutning laganna þriggja, en strákarnir í Hip Razcial voru hinsvegar hvorki nægilega samstilltir né öruggir. Á svona kvöldi fá menn bara eina tilraun og þurfa að "toppa" til að komast alla leið! Það tókst því miður ekki.

Í mánudagsblaði Morgunblaðsins (bls.34) segir Árni Matthíasson: "Hip Razical var…ekki eins sannfærandi og í undanúrslitum. Sveitin lenti líka í smá hljómvandræðum í fyrsta laginu, en náði sér svo ágætlega á strik. Það spillti þó nokkuð fyrir henni að bassaleikarinn er ofvirkur á bassann, spilar allt of mikið, og fyrir vikið var annað lag hennar, sem er býsna gott, leðjukennt á kafla. Síðasta lag sveitarinnar var best, mjög vel heppnað lag með fínni laglínu, sem fékk þó ekki að njóta sín sem skyldi."


Hip Razical í Músiktilraunum 2007 á laugardag

Hip Razical - Jón Atli, Davíð, Snævar og Styrkár - Mynd: JÞB 2007Bílskúrsbandið okkar hér í Barmahlíð á Krók er nú að á sinni síðustu æfingu fyrir úrslit Músiktilrauna 2007 sem fram fara á laugar- dag í Listasafni Reykjavíkur Hafnarhúsi. Þeir Davíð, Snævar, Styrkár og Jón Atli hafa eytt stórum hluta vikunnar í undirbúning; tónlistarlegan sem andlegan. Lögin It stays the same, Untrue Stories og OD hljóma orðið þétt og fagmannlega útfærð. Seinna í dag fer þetta framtíðarinnar stórband Hip Razical suður á bóginn, því hljóðprufur og fundur eru snemma í fyrramálið. Foreldrar sem og aðrir aðdáendur eru spenntir og ætla að fjölmenna af Krók á þennan hápunkt tónlistarferils strákanna. Miðasala hefst kl. 16, miðaverð er kr. 1.000,- og fyrstu hljómsveitir stíga á svið kl. 17.
Áfram Hip Razical!!!


Umsögn Árna Matt um Hip Razical

Hip Razical fyrir tónleikana á fimmtudagÍ Morgunblaðinu í dag gagnrýnir Árni Matthíasson þær hljómsveitir sem komust áfram í úrslit Músiktilrauna af undankvöldi fjögur á fimmtudag, auk umfjöllunar um þær sveitir sem komust ekki áfram. Um Hip Razical frá Sauðárkróki, sem dómnefndin valdi áfram í úrslitakeppnina, segir Árni: "Hip Razical mættu til leiks eftir tveggja ára æfingar og sýndu gríðarlega framför. Það kom ekki á óvart að bassaleikur var fyrsta flokks, en gaman að sjá að öll sveitin hafði tekið stórstígum framförum, ekki síst í lagasmíðum. Músíkin var nokkuð hefðbundin – fyrra lagið emo, það síðara indískotið, en lögin grípandi góð og söngur mjög vel útfærður."

Hip Razical áfram í úrslit Músiktilrauna 2007

Davíð Jónsson söngvari og lagasmiður Hip Razical í sæti söngvara Incubus, sem kvittaði fyrir sig á vegginn á Hamborgarabúllu TómasarEftir taugatrekkjandi hálftíma bið skokkaði Óli Palli á svið og tilkynnti úrslit kvöldsins: Dómnefndin valdi Hip Razical frá Sauðárkróki til að spila á úrslitakvöldi Músiktilrauna 2007! Að sjálfsögðu brast á með miklum fögnuði í herbúðum Hip Razical við þessar gleðifréttir, en auk hljómsveitarinnar voru mættir í Loftkastalann um tugur dyggra stuðningsmanna úr Skagafjarðar- og Húnavatnssýslu. Tvær aðrar hljómsveitir komust áfram þetta kvöldið, Custom, með atkvæðum áheyrenda og stuðningshóps síns, og Shogun, einnig með dómnefndaratkvæði. Úrslit Músiktilrauna 2007 verða að viku liðinni, laugardaginn 31. mars, en þá má heyra í Hip Razical og hinum hljómsveitunum í beinni á Rás 2, auk þess sem Sjónvarpið tekur upp og sýnir síðar.

Músiktilraunir reknar úr húsi!

Fjórða undankvöld Músiktilrauna stendur nú yfir, með rúmlega klukkustundar óvæntu hléi. Í Loftkastalanum, sem er einn af betri rokktónleikastöðum borgarinnar fyrir svona viðburði, er einnig í kvöld verið að taka upp spurningaþáttinn Gettu betur. Þegar þrjár af tíu hljómsveitum kvöldsins höfðu spilað sín lög, steig kynnirinn, Óli Palli á Rás 2, á stokk og tilkynnti miður sín að vegna of mikils fjölda í húsinu, yrði að rýma það í um klukkutíma. Allir út, sorry! Bannað er að hafa svona marga í húsinu og þetta uppgötvaðist ekki fyrr en á hólminn var komið. Nú eru hljómleikagestir Músiktilrauna í kaffi í Hinu húsinu og bíða þess að verði ekið með rútum aftur upp í Loftkastala, þegar Gettu betur verður lokið. Mesta furða hvað hópurinn tekur þessu með miklu jafnaðargeði, en auðvitað á eftir að koma í ljós hvaða áhrif þetta hefur á stemninguna, Hip Razical og hinar hljómsveitirnar sem eftir eru.

Hip Razical í Loftkastalanum í kvöld

Hip Razical - mynd: JÞBFjórða undankvöld Músiktilrauna 2007 er í kvöld fimmtudag og þar mun hljómsveitin Hip Razical frá Sauðárkróki stíga á svið og flytja tvö frumsamin lög, It stays the same og Untrue stories eftir Davíð Jónsson gítarleikara og söngvara. Styrkár Snorrason mun lemja húðirnar, Jón Atli Magnússon leikur af alkunnri snilld á rafgítar og Snævar Örn Jónsson plokkar bassann. Fjölskyldan úr Barmahlíðinni fjölmennir að sjálfsögðu á staðinn og stendur við bakið á sinni bílskúrshljómsveit. Loftkastalinn opnar kl. 18, fyrsta hljómsveit af þeim tíu sem spila í kvöld keyrir í gang kl. 19 og miðaverð er 700 kr. Allir eru velkomnir, sérstaklega verður vel tekið á móti nágrönnum sem hafa þurft að þola hávaðann úr bískúrnum síðustu þrjú ár.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband