Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Ekki talað nóg við börnin

Heyrði í tíufréttum Sjónvarpsins að íslenskir foreldrar hefðu ekki tíma til að tala við börnin sín. Þetta er auðvitað ekki nógu gott og verður að reyna að bæta úr. Ég kannast alveg við þetta sjálfur, mamma og pabbi hafa ekki talað við mig svo dögum skiptir.

Hvað er tónlist?

Ég er búinn að vera að velta tónlist talsvert fyrir mér upp á síðkastið. Ekki einhverri ákveðinni tónlist, heldur fyrirbærinu sjálfu og því hvernig hún vekur ólík hughrif með manni. Upphafið var skólaverkefni þar sem reynt var að svara þeirri spurningu hvort tónlist væri minjagripur. Fullnaðarsvar hefur ekki fengist, en sannarlega er hægt að nota tónlist til að kalla fram minningar, sömuleiðis sem undirspil undir atburð, jafnvel þannig að hún verði að eilífu hluti af honum. Útlendingur sem ekur hringveginn með Sigurrós í spilaranum á Yarisnum á vafalítið eftir að tengja tónlistina við sterka upplifun sína af íslenskri náttúru (eða rolluna sem hann ók á) það sem eftir er.

Úti í bílskúr er ég með lyftingatæki sem ég nota 2-3 í viku, og þar er líka gamli lúni Bang&Olofsen grammafónninn hennar mömmu, ásamt öllu gamla vinylplötusafninu mínu. Lyftingar fara því undantekningarlaust fram undir tónlist frá áttunda og níunda áratugnum og þetta framkallar ýmis hughrif. Stundum fylgir myndræn minning ákveðnu lagi en svo er líka allt eins algengt að engin ákveðin minning komi með laginu, heldur bara tilfinning; alveg óskilgreind ómyndræn hughrif sem ég næ ekki að festa hönd á eða tengja við neitt, en eru samt svo sterk að þau eru næstum áþreifanleg. Niðurstaðan gæti því orðið sú að ef minjagripur færir manni minningar og skapar hughrif, ja þá er tónlist minjagripur... allavega í einhverjum tilfellum. Eða hvað?


Síendurnýjanlegur forngripur?

Heimilistölvan sem ég nota dagsdaglega er næstum orðin eins og í sögunni um gamla hamarinn hans afa, þar sem fjórum sinnum var búið að skipta um skaft og tvisvar um haus. Í fyrra var aflgjafinn endurnýjaður en hann var það síðasta, fyrir utan sjálfan málmkassann, sem eftir var af tölvunni sem fjárfest var í seint á síðustu öld, árið 1997. Nú er tölvan hinsvegar aðeins farin að hökta þegar margt er í gangi í einu og það getur verið pirrandi þegar maður er í vinnuham, auk þess sem kannski er nú  tryggara að hafa svona tæki í lagi þegar maður hendir sér út í BA-ritgerðarvinnuna af alvöru á næstu vikum. En þar sem öflugri örgjörvi er í raun það eina sem vantar núna er ég að spá í að kaupa bara nýtt móðurborð og nýta garminn aðeins lengur. Sumir eru nýtnir að eðlisfari, en maður veltir því fyrir sér hversu langt sé hægt að ganga?

Dulbúnir ferðamenn á framandi slóð

Verslun 12 tóna við Skólavörðustíg - Mynd: Jón ÞórÍ síðustu viku fórum við bekkjarsystkin á Skólavörðu- stíginn í Reykjavík í leit að hentugu viðfangsefni til að nota í vettvangskönnun. Eftir skemmtilegar heimsóknir til serbneskrar konu (Lana Matusa) sem framleiðir verk sem einkennast í útliti af mosa og hrauni, og íslenskrar konu sem vinnur með japanskt silki, málar og límir og notar gamla texta með rúnaletri, þá völdum við að fjalla í verkefni okkar um verslun 12 tóna. Við veltum því m.a. fyrir okkur hvort tónlist gæti verið minjagripur. Við fengum góðar móttökur í verlsun 12 tóna, en þar er boðið upp á ókeypis esprresso kaffi og sófasett bæði á neðri og efri hæð þar sem hægt er að hlusta á tónlist. Á afgreiðsluborðinu rákum við augun Njarðarskjöldinn! Hva er det for noe? spurðum við nú bara (í tilefni þess að 12 tónar eru líka með búð í Köben).

Í ljós kom að þessi hvatningarviðurkenning Höfuðborgarstofu og Verslunarmanna hefur verið veitt árlega síðan 1996 þeirri verslun sem þótt hefur skara framúr í þjónustu við erlenda ferðamenn og fær hún þá skjöldinn góða, bækling og titilinn: Ferðamannaverslun ársins. Þeir sem hafa fengið viðurkenninguna fram að þessu hafa mismikið flaggað henni og þó flestir viðmælenda okkar litu þetta jákvæðum augum mátti heyra þá skoðun að sumir teldu slíkan "túristastimpil" geta fælt frá, ekki bara heimamenn, heldur líka ferðamenn. Getur verið að við reynum að líta ekki út eins og ferðmenn þegar við ferðumst á framandi slóð og að við forðumst sérstaklega þær vörur sem ætlaðar eru ferðamönnum?


Full harkaleg hreingerning

Í heimsókn Ferðamáladeildar Hólaskóla í Alþjóðahúsið við Hverfisgötu nú í vikunni fræddi Gerður Gestsdóttir okkur um margþættan vanda sem fylgir því alþjóðlega andrúmslofti sem nú umlykur margar greinar íslensks atvinnulífs, ekki hvað síst í byggingariðnaði og ferðaþjónustu. Hún sagði mikilvægt að tala hægt og skýrt til starfsmanna sem ekki skilja íslensku vel, nota einföld orð og endurtaka leiðbeiningar með öðrum orðum, til að koma í veg fyrir misskilning, eins og í eftirfarandi sögu:

Verkstjóri á byggingarstað kallaði skipandi til útlenda hópsins rétt í þann mund sem hann stökk upp í bíl sinn: "Og veriði svo búnir að þrífa kaffiskúrinn áður en ég kem aftur!!!" Þegar hann kom til baka tveimur tímum síðar blasti við stafli af timbri og krossviðarplötum þar sem skúrinn hafði staðið, en útlendu starfsmennirnir voru búnir að vinna það verk sem þeim heyrðist hann hafa gefið skipun um: Að þeir ættu að rífa skúrinn áður en hann kæmi tilbaka!


Hættuleg íblöndunarefni í matvælum

Nauðsynlegt er að minna reglulega á varnaðarorð um hættuleg aukaefni í mat. Því miður er enn mikið um það að við innbyrðum nokkuð magn slíkra efna daglega án þess að spá sérstaklega í það. Eitt af því allra varasamasta er bragðaukandi efni sem heitir E-621 eða MSG (natríumglútamat), en finnst bæði dulbúið og undir öðrum nöfnum, s.s. food enhancer, smagforstærker, glutamate o.fl.

Þetta efni hefur talsvert verið rannsakað og fyrir utan að geta haft skaðleg áhrif á taugafrumur og valdið verkjum í vöðvum, liðum, höfði og maga, benda nýlegar rannsóknir til þess að samband sé milli neyslu þessa efnis og Altzheimer, vefjagigtar, MS og MND. Svæsnust áhrif hefur efnið þó þegar það fer saman með öðrum efnum (t.d. E133) sem blandað er í matvæli, en þá magna þau hvort annað upp og hafa margföld skaðleg áhrif á taugafrumur (hægja á vexti og trufla boðskipti). Fyrir börnin okkar getur þetta valdið vanda sem þau munu glíma við allt sitt líf.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Myndir af Ferðamáladeild í Færeyjum

Ferðamáladeild í skútsiglingu í Færeyjum. Mynd: Jón Þór  Að lokinni vorönn í hitteðfyrra fór hópur ferðamálanema og -kennara úr Háskólanum á Hólum í stórskemmtilega ferð til Færeyja. Gist var í Þórshöfn og farið í mislangar ferðir þaðan, m.a. í dagsferð í boði Ferðaráðs Föroya. Einnig heimsóttum við Kirkjubæ og sigldum fyrir seglum á gamalli skonnortu, en um þetta ferðalag allt hefur nú verið sett inn allravænsta myndasería sem telur rúmar fjörutíu myndir. Þeir sem þekkja sig sjálfa þarna en eru ekki nafngreindir mega gjarna setja inn viðbætur í "athugasemdir"; fyrirfram þakkir fyrir það. Myndaalbúmið má finna hér til vinstri á síðunni, eða með því að smella hér.

Eitthvað til að hugsa um

kona prjónar og þegir á meðanVar á námskeiði á Hólum í dag, sem er ekki í frásögur færandi, en heyrði þar góðan rembutexta, eiginlega drepfyndinn bara. Á fremsta borði sátu tvær dömur og prjónuðu í gríð og erg; veit ekki hvort það fór nokkuð í taugarnar á fyrirlesaranum, en honum fannst ástæða til að segja frá eftirfarandi athugasemd um prjónandi konur: "Ég hef heyrt að konur prjóni til að hafa eitthvað að hugsa um meðan þær tala."

Sjallarnir sauðtryggir og samir við sig

Það er misjafnt sem menn finna upp á til að réttlæta endurkomu Árna Johnsen í íslensk stjórnmál. Fyrir nokkru síðan las ég skrif eftir mann sem sagði að ef Árni hefði verið starfsmaður Evrópusambandsins og stolið úr þeirra sjóðum, þá hefði honum líklega EKKI verið refsað fyrir, en þessi bloggari hafði sannanir fyrir því að einhverjir starfsmenn sambandsins hefðu stolið, en sloppið án refsingar. Það er víða misjafn sauður í mörgu fé og aldrei gott þegar mönnum er ekki refsað fyrir brot sín. En markmið skrifa fyrrnefnds bloggara var ekki að segja okkur frá því. Hvað vildi hann þá með skrifum sínum?

Jú það kom á daginn að hann var að leita að leið til að spyrða saman eitthvert svínarí í Evrópusambandinu við stjórnmálaflokk uppi á litla Íslandi, nefnilega Samfylkinguna. Hann skammaði flokkinn að þeir skyldu voga sér að tala hlýlega um Evrópusambandið á sama tíma og einhverjir flokksmeðlimir væru að gagnrýna endurkomu Johnsens. Fjárdráttarmenn í Brussel = Samfylking = Kombakk hjá Árna = OK. Sjálfsagt kaupa einhverjir þessu skrýtnu röksemdafærslu, efast um heiðarleika Samfylkingarfólks (vegna brota starfsmanns EU) og finnst ekkert athugavert að Árni Johnsen komist aftur með skítuga fingur að kjötkötlunum. Já þau eru mörg skrýtin rökin sem sjálfstæðismenn nota til að reyna réttlæta endurkomu þessa manns, ég segi nú ekki meir.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband