Við látum ekki blekkja okkur Einar

Í Blaðinu í gær segir Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra okkur frá góðum árangri íslenskrar útrásar á Bretlands- og Bandaríkjamarkaði. Hann nefnir sem dæmi Latabæjarlagið, sem náð hefur 4. sæti breska vinsældalistans, og góðan árangur BangGang í Bandaríkjunum, sem ráðherrann segist hafa heimildir um af heimasíðu hljómsveitarinnar. Af ástæðum, sem tiltölulega auðvelt er að geta sér til um, nefnir Einar hinsvegar ekki mýmörg dæmi sem eru til vitnis um þann skaða sem hann hefur valdið íslenskri útrás á fyrrnefndum mörkuðum með ákvörðun um að hefja aftur hvalveiðar í atvinnuskyni. Þar má nefna tjón sem sönghópurinn Nylon hefur þurft að þola á Bretlandsmarkaði, en ekki síður það mikla uppnám sem orðið er á stöðu íslenskra landbúnaðarvara hjá Whole Food Market í Bandaríkjunum, en þessi virta verslunarkeðja hefur ákveðið að hætta að markaðssetja vörur frá Íslandi.

Frásögn ráðherrans minnir á dávaldinn í Little Britain: "Look into my eyes, look into my eyes!" …þar sem hann reynir að láta fólk sjá eitthvað allt annað en raunveruleikann. Með sérvöldum dæmum sínum er Einar á mjög svo klaufalegan hátt að reyna að breiða yfir þá staðreynd að ákvörðun hans um hvalveiðar hefur valdið íslenskri útrás tjóni. Trúlega sjáum við þó enn bara toppinn á þeim ísjaka ef veiðar í atvinnuskyni verða áfram leyfðar. Í rannsóknaraðferðum í félagsvísindum myndi frásögn ráðherrans í Blaðinu í gær kallast hlutdrægni (e. Selective observation); þ.e.a.s. hann velur eingöngu að skoða og segja frá því sem hentar trú hans, málstað eða hagsmunum. Á slíku er nákvæmlega ekkert að byggja og í raun alveg ótrúlegt að ráðherra í ríkisstjórn Íslands skuli reyna að blekkja okkur með svona málflutningi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband